Ný vefsíða KSÍ hefur verið opnuð
Ný vefsíða KSÍ hefur nú verið opnuð. Undirbúningur fyrir gerð nýrrar vefsíðu hófst fyrir rúmlega einu ári síðan og hefur framkvæmd verksins verið á höndum Advania. Gamla vefsíða KSÍ var komin verulega til ára sinna og fullnægði ekki tæknikröfum nútímans um gott aðgengi í mismunandi gerðum tækja. Helstu markmiðin með nýju vefsíðunni voru að hún yrði einföld og þægileg í notkun og að hún væri aðgengileg í öllum gerðum tækja, allt frá farsímum til borðtölva.
Annað markmið með þessari nýju vefsíðu er að bæta til muna aðgengi að upplýsingum úr mótakerfi KSÍ og hefur allt aðgengi að upplýsingum nú verið einfaldað. Þannig getur hver notandi síðunnar nú valið með hvaða liðum hver og einn vill fylgjast og fengið þannig alltaf upp sömu upplýsingarnar þegar komið er inn á forsíðuna. Hægt er að velja "Mín lið" hér ofar á síðunni og geta allir skráð aðgang að síðunni og þannig sniðið síðuna að sínum þörfum og áhuga.
Á næstu vikum verða hinir ýmsu eiginleikar síðunnar kynntir nánar en til að byrja með hvetjum við fólk til að skoða sig um. Það er ljóst að í umfangsmiklu verki eins og gerð vefsíðu fyrir KSÍ er að mörgu að hyggja og því má búast við einhverjum hnökrum fyrst um sinn. Leikskýrsluskráning er til dæmis ekki enn komin í nýtt umhverfi en forritarar vinna að því hörðum höndum að klára það verkefni. Til að byrja með verða því þeir sem vinna með leiksskýrslur að fara inn á gömlu síðuna eins og áður. Hægt er að komast inn í leikskýrsluskráningu með því að smella hér.
Allar ábendingar um hvað betur megi fara á nýju vefsíðunni eru vel þegnar og hvetjum við fólk til að senda tölvupóst á media@ksi.is ef það er með einhverjar ábendingar eða spurningar.
Til hamingju með nýja vefsíðu KSÍ