A kvenna - Leikið gegn Slóveníu á föstudaginn
A landslið kvenna mætir Slóveníu í undankeppni HM 2019 á föstudaginn, en leikið er á Sportni Park Lendava í Slóveníu. Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á RÚV.
Ísland er í þriðja sæti riðilsins með sjö stig, en á leik til góða á bæði Þýskaland, með 9 stig, og Tékkland, með 7 stig.
Myndir - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta er í fimmta sinn sem liðin mætast. Ísland hefur unnið þrjá leiki og Slóvenía einn hingað til, en liðin mættust einmitt á sama velli og nú árið 2015 og endaði sá leikur með 6-0 sigri Íslands. Það voru Harpa Þorsteinsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Sandra María Jessen og Dagný Brynjarsdóttir sem skoruðu mörk Íslands þá.