• mið. 28. mar. 2018
  • Landslið

A karla - 1-3 tap gegn Perú í New Jersey

29663303_10215733534561671_1825947871_n

A landslið karla tapaði 1-3 gegn Perú, en það var Jón Guðni Fjóluson sem skoraði mark Íslands í fyrri hálfleik. Leikurinn fór fram á Red Bull Arena í New Jersey.  

Það tók Perú aðeins þrjár mínútur að komast á blað, en það var Renato Tapia sem skoraði með skalla eftir aukaspyrnu utan af kanti. Svo sannarlega ekki óskabyrjun fyrir strákana.

Eftir markið hafði Perú stjórn á leiknum í 5-10 mínútur, en eftir það komst Ísland betur og betur inn í leikinn og voru oft á tíðum nálægt því að skapa sér góð færi. 

Rúrik Gíslason og Jóhann Berg Guðmundsson komust báðir í skotfæri, en tókst ekki að koma boltanum á markið.

Það var svo á 22. mínútu sem strákunum tókst að jafna metin. Birkir Bjarnason átti þá frábæra hornspyrnu sem Jón Guðni Fjóluson stangaði í netið. Frábærlega gert og markvörður Perú átti ekki möguleika.

Eftir markið náði Ísland ágætis tökum á leiknum og fékk Birkir ágætis færi þegar boltinn datt fyrir hann fyrir utan teig, en skot hans fór framhjá.

Perú komst aftur betur inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks og náðu að skapa sér fín færi. Frederik Schram bjargaði einu sinni með frábæru úthlaupi og í öðru slíku skutu Perú yfir. 

Björn Bergmann Sigurðarson var síðan nálægt því að taka forystuna fyrir Ísland þegar hann skallaði yfir eftir frábæra fyrirgjöf frá Ara Frey Skúlasyni. Staðan jöfn í hálfleik.

Það tók strákana aðeins um fimm mínútur að skapa sér fyrsta færi sitt í síðari hálfleiknum. Frederik átti þá langa spyrnu fram sem Kjartan Henry flikkaði áfram. Boltinn datt í hlaupaleiðina hjá Birni Bergmann en markvörður Perú varði vel frá honum.

Stuttu seinna fékk Birkir Bjarnason gult spjald þegar hann stöðvaði sókn Perú á miðjum vellinum. Á 57. mínútu kom Arnór Ingvi Traustason inn á fyrir Rúrik.

Tveimur mínútum síðar komst Perú yfir að nýju, en það var Raul Ruidiaz sem skoraði mark þeirra eftir að boltinn barst til hans á fjærstöng. Það var svo á 63. mínútu sem Theodór Elmar Bjarnason kom inná fyrir Kjartan Henry Finnbogason.

Markið gaf Perú augljóslega mikinn kraft og náðu þeir ágætis tökum á leiknum í kjölfarið, en þó án þess að skapa sér nein opin færi. Þegar tæplega tuttugu mínútur voru til leiksloka kom Viðar Örn Kjartansson inná fyrir Jóhann Berg.

En aðeins fimm mínútum síðar skoruðu Peru þriðja mark sitt. Jefferson Farfan fékk þá boltann inní og skot hans fór af varnarmanni og í mark Íslands.

Ísland gerði síðan tvær skiptingar með stuttu millibili. Þá komu þeir Sverrir Ingason og Birkir Már Sævarsson inn á fyrir Birki Bjarnason og Ara Frey Skúlason.

Leikurinn róaðist niður í lokin og náði hvorugt liðið að skapa sér fleiri opin færi og 1-3 tap Íslands því staðreynd.


Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð