• þri. 27. mar. 2018
  • Lög og reglugerðir

Breytingar á lögum KSÍ og breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót

KSI-MERKI-PNG

Á fundi stjórnar KSÍ 15. mars sl. samþykkti stjórn KSÍ breytingar á lögum KSÍ og breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. 

Breytingar þessar eru annars vegar til samræmis við samþykktir ársþings KSÍ 2018 og hins vegar samþykktar breytingar að tillögu mótanefndar KSÍ. 

Um er að ræða eftirfarandi breytingar: 

1. Lagaákvæði til bráðabirgða vegna fjölgunar félaga í 3. deild karla keppnistímabilið 2019. 

Nýju bráðabirgðaákvæði hefur verið bætt við í lög KSÍ vegna samþykktar ársþings KSÍ 2018 á tillögu Reynir S. um fjölgun á félögum í 3. deild karla keppnistímabilið 2019 úr 10 í 12. 

Bráðabirgðaákvæðið er í samræmi við samþykkta tilhögun á því hvernig fjölgað verður um félög í 3. deild karla sumarið 2019. 

Deildin mun samanstanda af þeim tveimur félögum sem hafna í 11. og 12. sæti 2. deildar karla 2018, þeim sjö félögum sem hafna í sætum 3.-9. í 3. deild karla 2018 og þeim þremur félögum sem hafna í sætum 1.-3. í 4. deild karla.

2. Ákvæði til bráðabirgða vegna 2. flokks kvenna 2018. 

Bráðbirgðaákvæðið er samhljóma því sem var í gildi fyrir árið 2016 og 2017. Ákvæðið heimilar félögum í 2. flokki kvenna að hafa þrjá eldri leikmenn í hverjum leik, sem eru 20-22 ára á almanaksárinu (konur fæddar 1996, 1997 og 1998), og léku ekki með meistaraflokki félagsins í næsta leik á undan.

3. Breytingar á ákvæðum um 4. flokk kvenna til samræmis við 4. flokk karla.

Samþykktar breytingar er liður í því að samræma ákvæði um 4. flokk kvenna og 4. flokk karla. Nú er tiltekið í ákvæði 35.1.1. (4. flokkur kvenna) að riðlar A, B og C eru fyrir Suðurland, Vesturland og Vestfirði líkt og í samhljóma ákvæði um 4. flokk karla. 

Þá er nú tiltekið í ákvæði 35.1.2. (4. flokkur kvenna) að þau tvö lið sem verða neðst í B riðli falla næsta keppnisár niður í C riðil en tvö efstu liðin í C riðli taka sæti þeirra í B riðli, líkt og í samhljóma ákvæði um 4. flokk karla.

Einnig er gerð sú breyting á ákvæði 27.1.8. að nú kveður svo á um að A4 taki þátt í úrslitakeppni ef F1 tekur ekki þátt. Áður sagði í ákvæðinu að í stað F1 kæmi A4 eða E2.

Dreifibréf nr. 3/2018