• fim. 22. mar. 2018
  • Landslið

Milliriðill EM U17 kvenna:  Ísland vann Írland

29496600_1730399270316372_8510938796122963968_o

U17 landslið kvenna lék í dag fyrsta leik sinn í milliriðli EM 2018, en leikið er í Þýskalandi.  Mótherjinn var Írland og var um hörkuleik að ræða.  Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en íslenska liðið átti hættulegri sóknir.  Eina markið fyrir hlé kom úr vítaspyrnu og var þar fyrirliðinn Karólína Lea Vilhjálmsdóttir að verki á 23. mínútu.  Seinni hálfleikur fór ekki vel af stað fyrir íslenska liðið og Emily Whelan jafnaði metin eftir 5 mínútur.  Áfram var þó jafnræði með liðunum, sem skiptust á að sækja, en Ísland meira ógnandi sem fyrr.  Á 69. mínútu kom Sveindís Jane Jónsdóttir Íslandi í 2-1 með góðu marki og reyndist það sigurmarkið í leiknum.

Í hinum leik riðilsins mættust Þýskaland og Aserbaídsjan og þar vann þýska liðið 5-0 sigur.  Næsta umferð milliriðilsins er á sunnudag og þá mætir Ísland Þýskalandi í leik sem hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.

Staðan í riðlinum og leikskýrsla á vef KSÍ

Nánar um leikinn á vef UEFA