Samstarfsverkefni FIFA og KSÍ um frekari þróun á kvennaknattspyrnu
Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur valið KSÍ úr hópi evrópskra knattspyrnusambanda til að taka þátt í nýju tilraunarverkefni FIFA um kvennaknattspyrnu (Women‘s football development pilot project 2018).
Sex knattspyrnusambönd, eitt frá hverju álfusambandi, hafa verið valin til þátttöku í verkefninu en markmið FIFA með því er að styrkja kvennaknattspyrnu víðsvegar um heiminn með hjálp leyfiskerfis.
FIFA kemur til með að fjármagna verkefnið að öllu leyti og starfa að hluta til með KSÍ á meðan verkefninu stendur. Verkefnið mun í meginatriðum snúa að því að sinna greiningarvinnu vegna leyfiskerfis fyrir efstu deild kvenna hér á landi.
Stefnt er að því að leyfiskerfi fyrir félög í efstu deild kvenna verði tilbúið til kynningar í upphafi ársins 2019.
Til stendur að ráða einstakling til starfa tímabundið til þess að sinna verkefninu. Starfið verður auglýst sérstaklega síðar.