A kvenna - Markalaust jafntefli gegn Evrópumeisturunum
Ísland gerði á mánudag markalaust jafntefli gegn Evrópumeisturum Hollands í síðasta leik liðsins í riðlakeppni Algarve Cup. Liðið mætir Danmörku í leik um 9. sæti á miðvikudaginn.
Fyrstu mínútur leiksins voru nokkuð jafnar en það voru Hollendingar sem fengu fyrsta færi leiksins eftir um átta mínútna leik.
Lieke Martens fékk þá tíma til að athafna sig inni í vítateig Íslands, en skot hennar fór beint á Guðjörgu Gunnarsdóttur í marki Íslands.
Nokkrum mínútum síðar komust þær hollensku í skotfæri fyrir utan teig, en skotið fór af varnarmanni Íslands og framhjá.
Á 15. mínútu fengu íslensku stelpurnar besta færi sitt í fyrri hálfleiknum, en þá fékk Agla María Albertsdóttir góða sendingu inn fyrir en markvörður Hollendinga varði vel.
Holland náði fljótlega eftir það góðum tökum á leiknum, voru stundum nálægt því að skapa sér opin færi en vörn Íslands hélt vel og lokaði þeim svæðum sem þurfti að loka. Guðbjörg þurfti einu sinni að taka á honum stóra sínum þegar hún varði vel skot úr teignum rétt undir lok hálfleiksins.
Ísland gerði eina skiptingu í hálfleik. Fanndís Friðriksdóttir fór þá útaf og Hlín Eiríksdóttir kom inn í hennar stað.
Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega þar sem bæði lið héldu boltanum ágætlega sín á milli. Holland komst í tvo góð færi á 60 mínútu en þó án þess að koma boltanum á markið.
Holland voru meira með boltann á meðan stelpurnar vörðust vel, lokuðu svæðum og settu góða pressu á þær hollensku. Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum komst Lineth Beerensteyn í gegn, setti boltann fram hjá Guðbjörgu en boltinn endaði í stönginni.
Rúmlega fimm mínútum síðar kom Anna Björk Kristjánsdóttir inn á fyrir Öglu Maríu.
Holland hélt áfram að pressa vel á íslensku vörnina, voru meira með boltann á meðan Ísland sat djúpt og reyndi að sækja hratt þegar þær fengu boltann. Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum kom Sandra María Jessen inn á í og Rakel Hönnudóttir fór útaf.
Fleiri færi litu ekki dagsins ljós og því frábært markalaust jafntefli gegn Evrópumeisturum Hollands staðreynd. Hollendingar voru meira með boltann, pressuðu mikið á vörn Íslands en tókst ekki að brjóta hana á bak aftur.