• fös. 02. mar. 2018
  • Landslið

A kvenna - 1-2 tap gegn Japan

Starting-gegn-Japan-mynd

Ísland tapaði 1-2 fyrir Japan í öðrum leik liðsins á Algarve Cup. Það var Glódís Perla Viggósdóttir sem skoraði mark Íslands í seinni hálfleik.

Japan byrjaði leikinn af krafti og náði stjórn á honum strax frá byrjun og setti mikla pressu á vörn Íslands. 

Á 9. mínútu leiksins komust þær einar í gegn en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mjög vel í marki Íslands. Stuttu síðar fengu þær annað færi en skot þeirra fór yfir markið. 

Það var síðan sex mínútum síðar sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Eftir góða stungusendingu yfir vörn Íslands setti Yuika Sugasawa boltann framhjá Guðbjörgu og í netið. 

Japan héldu áfram að stjórna leiknum og á 33. mínútu varði Guðbjörg aftur vel skot Japan. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Ísland gerði tvær skiptingar í hálfleik. Glódís Perla Viggósdóttir og Agla María Albertsdóttir komu inn á, útaf fóru Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.

Jafnræði var með liðunum í byrjun seinni hálfleiks, en það voru Japanir sem voru nær því að skapa sér álitleg færi. Eftir um tíu mínútna leik áttu Japanir gott skot rétt fyrir utan teig, en boltinn fór rétt framhjá markinu.

Á 60 mínútu komu þær Sara Björk Gunnarsdóttir og Rakel Hönnudóttir inn á og útaf fóru Katrín Ásbjörnsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir.

Rúmlega fimm mínútum síðar fengu Japanir tvö færi með stuttu millibili, en Guðbjörg sá við þeim báðum og varði vel.

Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum kom Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir inná fyrir Andreu Rán Hauksdóttur.

Fimm mínútum síðar fékk Ísland hornspyrnu. Eftir klafs í teignum tókst Glódísi að koma boltanum í netið. Stelpurnar búnar að jafna!

Eftir markið sóttu bæði liðin og reyndu að finna opin svæði, Japanir komust í gott færi en skot þeirra fór framhjá.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka skoruðu Japan með skalla eftir hornspyrnu. Staðan orðin 2-1 fyrir Japan.

Japan var heldur betra það sem eftir lifði leiks og vann 2-1 sigur.