• mið. 28. feb. 2018
  • Landslið

A kvenna - Markalaust jafntefli gegn Danmörku

Start-vs-Danmorku

Ísland gerði markalaust jafntefli gegn Danmörku í fyrsta leik sínum á Algarve Cup. Liðið lék mjög vel varnarlega séð og hefði hæglega getað skorað.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með, sótt var á báða bóga og bæði lið reyndu að skapa sér færi.

Ísland var mjög nálægt því að komast í góð færi og Agla María Albertsdóttir átti gott skot úr aukaspyrnu utan af kanti sem markmaður Danmerkur varði vel í horn. 

Liðið hélt áfram að vera nálægt því að skapa sér mjög álitleg marktækifæri, en það sama má segja um Danmörku og áttu þær t.a.m. ágætt skot yfir mark Íslands þegar hálftími var liðinn af leiknum. 

Svava Rós Guðmundsdóttir var einnig nálægt því að skora eftir frábæra fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur, en markmaður Dana varði.

Danir áttu góðan sprett eftir um hálftíma leik, settu mikla pressu á íslensku vörnina, sem stóð þétt og varðist vel. Staðan því 0-0 í hálfleik.

Það voru Danmörk sem hófu síðari hálfleikinn betur og þurfti Sandra Sigurðardóttir að taka á honum stóra sínum þegar hún blakaði boltanum í slánna og í horn. Frábærlega gert.

Bæði lið héldu áfram að sækja, en þó án þess að skapa sér góð færi. Á 65. mínútu fóru Svava Rós og Sandra María Jessen útaf og inn komu Hlín Eiríksdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir.

Danir settu fljótlega eftir það nokkra pressu á íslensku vörnina, en enn og aftur stóðst hún pressuna og varðist mjög vel.

Á 80. mínútu komu þær Katrín Ásbjörnsdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir inn á, en út fóru Rakel Hönnudóttir og Agla María.

Fimm mínútum síðar fékk Ingibjörg Sigurðardóttir boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið þó færið væri langt, en markvörður Dana varði.

Stuttu síðar komst Pernille Harder í gott skotfæri rétt fyrir utan teig en Sandra varði vel í marki Íslands.

Undir lok leiksins komu þær Andrea Rán Hauksdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir inn á, útaf fóru þær Hallbera Guðný og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Fleir færi litu ekki dagsins ljós og markalaust jafntefli staðreynd. Frábær frammistaða hjá íslenska liðinu, vörnin var þétt og mjög góð og hefði liðið getað skorað með smá heppni.