A kvenna - 1-2 tap gegn Noregi á La Manga
Ísland tapaði 1-2 gegn Noregi, en leikurinn fór fram á La Manga á Spáni. Það var Fanndís Friðriksdóttir sem skoraði mark Íslands strax í byrjun leiks áður en Norðmenn skoruðu eitt mark í hvorum hálfeik.
Leikurinn byrjaði frábærlega fyrir Ísland. Sandra María Jessen fékk sendingu upp kantinn, tók hann áfram inn á völlinn og setti hann yfir á Fanndísi sem setti hann frábærlega í markið. Draumabyrjun hjá íslenska liðinu.
Ísland var sterkari aðilinn næstu mínúturnar og komst Sandra María í gegn eftir góða sendingu frá Fanndísi stuttu síðar, en skot hennar fór í hliðarnetið.
Norðmenn komu sterkar inn fljótlega eftir það og varði Sandra Sigurðardóttir frábærlega í marki Íslands fjórum mínutum síðar. Eftir það tókst báðum liðum að skapa sér einhver færi en það var ekki fyrr en þremur mínútum fyrir lok hálfleiksins að annað mark leiksins leit dagsins ljós.
Norðmenn náðu þá að jafna eftir góða skyndisókn. Staðan því 1-1 í hálfleik. Sif Atladóttir fór útaf í hálfleik og Guðný Árnadóttir kom inn á í sínum fyrsta landsleik.
Það var nokkuð jafnræði með liðunum í síðari hálfleik og tókst þeim báðum að skapa sér eitthvað af færum. Á 58. mínútu komu Agla María Albertsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir inn á fyrir Söndru Maríu og Önnu Björk Kristjánsdóttur.
Það var svo á 62. mínútu sem Noregur tók forystuna eftir góða fyrirgjöf. 1-2 fyrir Noregi. Á 68. mínútu komu svo Andrea Mist Pálsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir inn á í sínum fyrsta landsleik fyrir Andreu Rán Hauksdóttur og Svövu Rós Guðmundsdóttur. 15 mínútum síðar kom síðan Hlín Eiríksdóttir inn á í sínum fyrsta landsleik fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
Frábær ferð að klárast með góðum leik gegn Noregi. Fimm leikmenn léku sinn fyrsta landsleik, en þær eru Andrea Mist Pálsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Guðný Árnadóttir og Anna Rakel Pétursdóttir.