• sun. 14. jan. 2018
  • Landslið

A karla - Flottur 4-1 sigur gegn Indónesíu

Byrjunarlid-14.-januar-2018

Ísland vann í dag 4-1 sigur á Indónesíu í síðari leik liðanna, en leikið var á Gelora Bung Karno vellinum í Jakarta. Albert Guðmundsson og Arnór Smárason skoruðu mörk Íslands.

Leikurinn var jafn framan af, en fyrsta færi Íslands leit dagsins ljós eftir aðeins fimm mínútur. Aron Sigurðarson fékk þá boltann inn í teignum en markvörður Indónesíu varði vel frá honum.

Jafnfræði var með liðunum næstu mínúturnar og lítið markvert gerðist. Það var síðan á 27. mínútu sem Arnór Ingvi Traustason þurfti að fara útaf vegna meiðsla og Albert Guðmundsson kom inn á í staðinn.

Tveimur mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins, en það voru heimamenn sem gerðu það eftir að Rúnar Alex Rúnarsson náði ekki að halda boltanum og Indónesar náðu frákastinu. 

Ísland náði að skapa sér nokkur færi áður en hálfleikurinn kláraðist og tókst þeim að jafna leikinn rétt áður en flautað var til hálfleiks. Andri Rúnar Bjarnason átti þá frábæra sendingu í gegn á Albert og náði hann að koma boltanum yfir línuna eftir að markvörðurinn hafði varið fyrra skot hans.

Í hálfleik komu þeir Hilmar Árni Halldórsson, Óttar Magnús Karlsson og Orri Sigurður Ómarsson inn á fyrir Ólaf Inga Skúlason, Andra Rúnar og Hólmar Örn Eyjólfsson.

Ísland náði stjórn á leiknum í síðari hálfleik og var betri aðilinn mest allan hálfleikinn. Það var svo á 58. mínútu sem liðið tók forystuna, en þá skoraði Arnór Smárason eftir að Óttar Magnús hafði skallað í slá. 

Aðeins sjö mínútum síðar skoraði Ísland aftur, eftir að brotið hafði verið á Alberti í teignum steig hann sjálfur á punktinn og setti hann örugglega í netið. Viðar Ari Jónsson kom inn á fyrir Samúel Kára Friðjónsson þremur mínútum síðar.

Albert fullkomnaði síðan þrennu sína á 72. mínútu. Hann fékk þá boltann nálægt miðlínu, tók á sprettinn og setti hann frábærlega framhjá markverðinum.

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom síðan inn á fyrir Kristján Flóka Finnbogason þegar 15 mínútur voru til leiksloka.

Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta, fá færi litu dagsins ljós og góður 4-1 sigur staðreynd.