• fim. 11. jan. 2018
  • Fræðsla

Súpufundur - Aðgengi fatlaðra stuðningsmanna

cafe

Fimmtudaginn 18. janúar nk. mun KSÍ bjóða til súpufundar þar sem Jochen Kemmer verkefnastjóri hjá CAFE (Centre for Access to Football in Europe) mun halda fræðslufyrirlestur um aðgengi fatlaðra stuðningsmanna að fótboltavöllum í Evrópu. 

CAFE eru samtök sem eru fjármögnuð að mestu af UEFA og vinna að því að tryggja fötluðum stuðningsmönnum gott aðgengi á fótboltavöllum í Evrópu. CAFE hefur veitt UEFA ráðgjöf og þjónustu fyrir keppnir á borð við úrslitakeppnir Evrópumóts landsliða árin 2012 og 2016, Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina. 

Jochen Kemmer hefur starfað hjá CAFE frá því í júlí árið 2017, en hann hefur því til viðbótar víðtæka reynslu innan íþróttahreyfingarinnar. Hann hefur reynslu af sjálfboðastörfum á Ólympíuleikum fatlaðra, verið starfsmaður alþjóða íþróttasamtaka og hefur bæði verið knattspyrnuþjálfari og leikmaður. Markmið fyrirlestrarins hjá Jochen er að kynna starfsemi CAFE og vekja athygli á mikilvægi góðs aðgengis fatlaðra stuðningsmanna á knattspyrnuvöllum landsins. 

Aðgangur er ókeypis. Fyrirlesturinn fer fram í húsakynnum KSÍ á Laugardalsvelli og hefst erindið kl. 12.10. Boðið verður upp á súpu og brauð. 

Til að áætla fjölda gesta viljum við vinsamlegast biðja þau ykkar sem hyggist koma um að skrá ykkur með því að senda tölvupóst á leyfiskerfi@ksi.is 

Fyrirhugað er að senda fyrirlesturinn út á netinu og verður fyrirkomulag þess auglýst síðar.