Sami stigabónus til leikmanna A landsliða karla og kvenna
Stjórn KSÍ hefur endurskoðað fyrirkomulag á árangurstengdum greiðslum (stigabónus) til leikmanna A landsliðanna vegna leikja í undankeppnum stórmóta. Upphæðir sem greiddar eru til leikmanna fyrir áunnin stig í undankeppnum stórmóta verða þær sömu óháð því hvort lið sé um að ræða.
Hingað til hefur fyrirkomulagið milli A landsliða karla og kvenna verið gerólíkt en eftir breytinguna er fyrirkomulagið orðið eins hjá báðum A landsliðum. Um er að ræða umtalsverða hækkun á stigabónus til leikmanna A landsliðs kvenna. Því má svo bæta við að dagpeningagreiðslur KSÍ til leikmanna vegna þátttöku í verkefnum A landsliða karla og kvenna hafa verið jafn háar í báðum liðum um árabil.
Það er mikilvægt fyrir íslenska knattspyrnu að KSÍ sé framsækið og beri hag allrar knattspyrnufjölskyldunnar fyrir brjósti. Það er von KSÍ að þetta skref hvetji fleiri knattspyrnusambönd til að fylgja í kjölfarið og stærri skref verði stigin á næstu árum og misserum í átt til meira jafnréttis karla og kvenna í milli.