Breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga
Á fundi stjórnar KSÍ 18. desember síðastliðinn samþykkti stjórn KSÍ breytingar á reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Breytingartillaga á reglugerðinni, sem samþykkt var af stjórn, var unnin af mannvirkjanefnd KSÍ. Um er að ræða breytingar á grein 8.4.3.
Þær breytingar sem um ræðir eru til samræmis við gildandi leiðbeiningar og breyttar reglugerðir frá UEFA og FIFA í málaflokki knattspyrnuleikvanga. Breytingar þessar gera ráð fyrir að prófanir á knattspyrnugrasi keppnisvalla fari fram í samræmi við gildandi staðla alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA þar um.
Í gæðaáætlun FIFA fyrir knattspyrnugras er miðað við að bæði FIFA Quality Pro og FIFA Quality gildi fyrir keppnisvelli. Evrópska knattspyrnusambandið UEFA gerir hins vegar þá kröfu að leikir á þeirra vegum fari fram á völlum sem uppfylla FIFA quality Pro. Munurinn er sá að FIFA Quality Pro er ætlaður fyrir Professional games og minni notkun (20 klst., eða minna, á viku) en FIFA Quality er ætlaður fyrir velli með mikla notkun (40 til 60 klst. á viku).
Reglubundnar prófanir skulu fara fram á árs fresti fyrir FIFA Quality Pro en á þriggja ára fresti fyrir FIFA Quality samkvæmt stöðlunum. Um er að ræða prófanir sem staðfesta að grasið uppfylli gerðar kröfur. Fyrir samþykktar breytingar kvað reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga svo á um að prófanir á knattspyrnugrösum á leikvöllum í A, B og C flokki megi ekki vera eldri en 24 mánaða miðað við 1. maí ár hvert.
Eftir samþykktar breytingar mun reglugerðin hins vegar gera ráð fyrir að reglubundnar prófanir skuli fara fram í samræmi við ákvæði FIFA staðlanna. KSÍ getur þó, ef ástæða þykir, krafist þess að prófanir fari fram oftar en FIFA staðlarnir segja til um en þó ekki oftar en á árs fresti.