• fös. 01. des. 2017
  • Landslið

KSÍ og auglýsingastofan Pipar/TBWA gera samstarfssamning um vörumerkjavöktun

KSI-og-Pipar

KSÍ og auglýsingastofan Pipar\TBWA hafa gert með sér samstarfssamning um vörumerkjavöktun í aðdraganda HM í knattspyrnu 2018. Samningurinn felur í sér að PIPAR\TBWA gæti hagsmuna KSÍ og sinni vörumerkjavöktun fyrir knattspyrnusambandið. 

„Við gerðum sambærilegan samning fyrir EM 2016 og það gekk vel“, segir Ómar Smárason markaðsstjóri KSÍ. „Það er full þörf á slíkri vöktun. Það er alltaf ákveðin freisting hjá auglýsendum að tengja sig liðinu í markaðsefni, ekki síst þegar vel gengur – og það er eðlilegt. Öll þjóðin fylgist með og allir vilja veg liðsins sem mestan. En um þetta gilda hinsvegar mjög strangar reglur. Merki KSÍ og landsliðsbúningurinn eru skrásett vörumerki og öll notkun myndefnis sem sýnir merkið, búninginn eða leikmenn íklædda honum er með öllu óheimil, nema samstarfsaðilum KSÍ.“

Pipar\TBWA sinnir vörumerkjavöktun fyrir hönd KSÍ til loka júlí 2018. Í því felst eftirlit með því að vörumerki KSÍ séu ekki misnotuð í markaðslegum tilgangi af óháðum aðilum, meðal annars til að gæta að ímynd KSÍ og íslenskrar knattspyrnu. Birting og notkun á samfélagsmiðlum er þar meðtalin. Öll óréttmæt eða óviðeigandi notkun varðar við lög. 

Það er ósk KSÍ að allir hlutaðeigandi virði þær reglur sem gilda fyrir vörumerki KSÍ sem greint er frá hér framar og lesa má nánar um á vefsíðu KSÍ. 

Allar fyrirspurnir varðandi reglur um notkun á vörumerkjum KSÍ, styrkbeiðnir og samstarf við KSÍ má beina til Pipars\TBWA í gegnum netfangið ksi@pipar-tbwa.is 

Nánari upplýsingar eða viðtöl vegna málsins veitir Ómar Smárason markaðsstjóri KSÍ, omar@ksi.is.