Opinbert plakat HM 2018 í Rússlandi kynnt
Það styttist óðfluga í dráttinn fyrir úrslitakeppni HM 2018 í Rússlandi, en hann fer fram á föstudaginn næstkomandi.
Í dag var kynnt opinbert plakat mótsins. Á því má sjá hinn goðsagnakennda markvörð Sovétríkjanna, Lev Yashin.
,,Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að það kæmi fram á plakatinu að Rússland væri mótshaldari. Þess vegna var Lev Yashin valinn, sem tákn rússneskrar knattspyrnu. Ég er handviss um að plakatið verði eitt af eftirminnilegustu táknum HM 2018 í Rússlandi og að stuðningsmenn verði sáttir með það," sagði Vitaly Mutko, forseti undirbúningsnefndar HM 2018.
Lev Yashin lék í fjórum heimsmeistarakeppnum - 1958, 1962, 1966 og 1970 - og er enn í dag eini markvörðurinn í sögunni sem hefur unnið Ballon d´Or, verðlaun fyrir besta leikmann heimsins. Á plakatinu er hann klæddur í sinn hefðbundna svarta búning, með hnéhlíf og húfu.
Myndin er hönnuð af Igor Gurovich, þekktum rússneskum listamanni.