• fös. 10. nóv. 2017
  • Landslið

U19 karla - 1-2 tap gegn Englandi

23380053_1599027213453579_4209257994879424161_n

U19 ára lið karla tapaði 1-2 fyrir Englandi í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2019, en leikið er í Búlgaríu. Það var Daníel Hafsteinsson sem skoraði mark Íslands.

Ísland tapaði fyrir Búlgaríu í fyrsta leiknum 1-2 og er því ljóst að Búlgaría og England fara áfram í milliriðla.

England stjórnaði leiknum allan tímann, var meira með boltann og skapaði sér fleiri færi. Það var þó Ísland sem fékk fyrsta færi leiksins þegar Guðmundur Andri Tryggvason komst í gott skotfæri inn í teig Englands, en varnarmaður þeirra náði að komast í veg fyrir skot hans.

Aðeins mínútu síðar komst Ben Brererton í gott færi í vítateig Íslands en skot hans fór rétt framhjá markinu.

England hélt áfram að skapa sér færi og setti mikla pressu á íslenska markið í fyrri hálfleik. Þeim tókst hins vegar ekki að skora áður en dómari leiksins flautaði til hálfleiks. Markalaust í hálfleik.

England hélt áfram að stjórna leiknum í seinni hálfleik, sköpuðu sér töluvert af færum og það var síðan á 70. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Mason Mount tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og smellti honum upp í markhornið. Glæsilegt mark.

Það var svo 12 mínútum síðar sem Íslandi tókst að jafna metin. Eftir nokkurn darraðadans í vítateig Englands var það Daníel Hafsteinsson sem kom boltanum yfir línuna og jafnaði metin.

Adam var þó ekki lengi í paradís, en aðeins mínútu síðar komst England aftur yfir með marki frá Eddie Nketiah.

Eftir það reyndu strákarnir að jafna að nýju en tókst það því miður ekki. 1-2 tap gegn sterku liði Englands staðreynd og ljóst að liðið kemst ekki í milliriðla.

Ísland leikur síðasta leik sinn í riðlinum á þriðjudaginn næstkomandi klukkan 12:30 að íslenskum tíma.

Áfram Ísland!

Byrjunarlið Íslands í dag:

Aron Dagur Birnuson (M)

Ástbjörn Þórðarson

Torfi T. Gunnarsson (fyrirliði)

Aron Kári Aðalsteinsson

Kolbeinn Birgir Finnsson

Atli Hrafn Andrason

Arnór Sigurðsson

Guðmundur Andri Tryggvason

Ísak Atli Kristjánsson

Alex Þór Hauksson

Óliver Dagur Thorlacius