U19 karla - 2-1 tap fyrir Búlgaríu í dag
U19 ára lið karla lék í dag fyrsta leik sinn í undankeppni EM 2018 þegar liðið tapaði 2-1 fyrir heimamönnum í Búlgaríu. Í riðlinum eru einnig England og Færeyjar.
Leikurinn hófst klukkan 12:30 að íslenskum tíma og fór hann fram á Hadzhi Dimitar vellinum í Sliven.
Hann var nokkuð jafn allan tímann, þó Búlgarar hafi átt fleiri færi í heildina. Lítið var um færi í fyrri hálfleik, en snemma í þeim seinni komust heimamenn einir í gegn en Aron Stefánsson varði vel í marki Íslands.
Sex mínútum síðar, á 58. mínútu, kom besta færi Íslands í leiknum. Guðmundur Andri Tryggvason fékk þá sendingu inn í teiginn, náði að snúa vel en setti boltann í slánna.
Áfram hélt leikurinn að vera jafn, en þó án þess að hvorugu liðinu tækist að skapa sér góð marktækifæri. Það var síðan á 78. mínútu sem heimamenn komust yfir. Ísland fór þá í skyndisókn þar sem Kolbeinn Kristinsson var nálægt því að komast í dauðafæri. Búlgarar brunuðu fram og áttu gott skot fyrir utan teig sem Aron varði vel í marki Íslands. Hann náði þó ekki að halda boltanum, hann datt fyrir Toni Ivanov sem kom honum yfir línuna.
Búlgarar bættu síðan við öðru marki sínu fjórum mínútum síðar eftir góðan sprett Stanislav Ivanov.
Ísland komst aftur inn í leikinn þegar aðeins þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar Búlgarar gerðust brotlegur inn í sínum eigin vítateig. Kolbeinn Birgir Finnsson steig á punktinn og skoraði. 2-1 fyrir Búlgaríu.
Strákarnir héldu áfram að sækja eftir markið og voru ótrúlega nálægt því að jafna leikinn í lok uppbótartíma. Daníel Hafsteinsson fékk þá frábært færi inn í teig Búlgara en setti boltann yfir markið.
Því var 2-1 tap staðreynd í fyrsta leik liðsins í riðlinum, en næsti leikur er gegn Englandi þann 11. nóvember. Seinasti leikur riðilsins er síðan gegn Færeyjum 14. nóvember.
Efstu tvö liðin í riðlinum fara áfram í milliriðil, en hann verður leikinn næsta vor. Lokakeppni mótsins verður svo í Finnlandi í júlí 2018.
Byrjunarlið Íslands í dag:
Aron Stefánsson (M)
Ástbjörn Þórðarson
Torfi T. Gunnarsson (fyrirliði)
Aron Kári Aðalsteinsson
Kolbeinn Finnsson
Atli Hrafn Andrason
Arnór Sigurðsson
Stefan Alexander Ljubicic
Guðmundur Andri Tryggvason
Ísak Atli Kristjánsson
Alex Þór Hauksson
Áfram Ísland!