• þri. 24. okt. 2017
  • Landslið

A kvenna - 1-1 jafntefli gegn Tékklandi

ÞÝS-ÍSL - Byrjunarliðið A kvenna

Ísland gerði í dag 1-1 jafntefli við Tékkland ytra, en þetta var þriðji leikur liðsins í undankeppni HM 2019. Það var Dagný Brynjarsdóttir sem skoraði mark Íslands í lok fyrri hálfleiks.

Þýskaland er á toppi riðilsins með níu stig og koma svo Ísland og Tékkland næst með sjö stig hvort. Þýskaland og Tékkland hafa þó leikið einum leik fleiri en Ísland.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn til að byrja með og bæði lið reyndu að sækja og skapa sér færi. Fljótlega tók Ísland stjórn á leiknum og fengu stelpurnar frábært færi eftir 18 mínútur. Sif tók þá langt innkast, Sara Björk flikkaði honum áfram og Gunnhildur Yrsa skallaði boltann yfir úr góðu færi.

Fimm mínútum síðar fór hornspyrna Öglu María í slánna og Elín Metta náði í kjölfarið ekki að skalla boltann á markið. Stuttu síðar voru Tékkar ekki langt frá því að skora þegar Veronika Pincova var alein eftir hornspyrnu, en setti skallann framhjá af stuttu færi.

Næsta færi Íslands leit dagsins ljós á 28 mínútu. Rakel Hönnudóttir fékk boltann í gegnum vörn Tékklands, var komin ein á móti markverði þeirra en honum tókst að verja skot Rakelar.

Ísland hélt áfram að vera sterkari aðilinn í leiknum og þegar aðeins ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma vann Elín Metta boltann á hægri kantinum. Henni tókst að setja boltann fyrir og Dagný Brynjarsdóttir hamraði boltann í netið með skalla. 

Tékkland vildi fá vítaspyrnu stuttu síðar, en dómari leiksins flautaði í staðinn til hálfleiks. 1-0 fyrir Ísland þegar leikurinn var hálfnaður.

Heimastúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og tóku strax stjórn á leiknum. Þær settu mikla og góða pressu á íslensku vörnina, en það var ekki fyrr en á 63 mínútu sem þeim tókst að jafna. Þær áttu þá hornspyrnu sem var hreinsuð út úr teignum, en boltinn lenti hjá Eva Bartonová sem hamraði boltann í slánna, í bakið á Guðbjörgu og inn. 

Þremur mínútum síðar gerði Ísland fyrstu skiptingu sína. Þá kom Katrín Ásbjörnsdóttir inn á fyrir Öglu Maríu Albertsdóttur. 

Ísland komst betur og betur inn í leikinn og tók aftur stjórn á honum þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Stelpurnar sköpuðu sér nokkur færi og voru innkost Sifjar mjög hættuleg, Sara Björk náði nánast alltaf að flikka boltanum áfram og munaði oft ltilu að stelpunum tækist að koma boltanum á markið.

Á 82 mínútu kom Sigríður Lára Garðarsdóttir inn á fyrir Rakel Hönnudóttur og sex mínútum síðar kom Anna Björk Kristjánsdóttir inn á fyrir Elínu Mettu Jensen. 

Ísland reyndi allt hvað það gat til að komast aftur yfir, þær settu mikla pressu á vörn Tékklands en ekki tókst þeim að koma boltanum inn fyrir línuna. 1-1 jafntefli staðreynd. 

Næstu leikir liðsins eru í apríl 2018, en 6. apríl mætir liðið Slóveníu og 10. apríl mæta þær Færeyjum og fara báðir leikirnir fram ytra.

Áfram Ísland!