A kvenna – Frábær sigur gegn Þýskalandi
Stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Þýskaland í Wiesbaden í dag. Leikurinn endaði með 3-2 sigri íslenska liðsins og er Ísland þar með í efsta sæti riðilsins í undankeppni HM með 6 stig. Þýskaland er einnig með 6 stig í riðlinum en hefur leikið einum leik meira íslenska liði.
Dagný Brynjarsdóttir kom íslenska liðinu yfir á 15. mínútu en Alexandra Popp jafnaði metin fyrir Þýskaland á 41. mínútu og staðan því 1-1 í hálfleik.
Elín Metta Jensen kom Íslandi í 2-1 í upphafi síðari hálfleiks en Dagný Brynjarsdóttir skoraði þriðja mark íslenska liðsins á 58. mínútu.
Lea Schuller skoraði svo fyrir þýska liðið á 87. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 3-2 fyrir Ísland.
Frábær sigur íslenska liðsins staðreynd en þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt A-landslið sigrar Þýskaland í 19 leikjum.
Víðir Sigurðsson blaðamaður á Morgunblaðinu er með ágæta söguskýringu eftir leikinn í dag:
Þetta er fyrsta tap Þjóðverja í 69 leikjum á 20 árum í undankeppni HM eða EM. Þýskaland tapaði 1:0 fyrir Hollandi á útivelli 13. desember 1997 í undankeppni HM 1999. Frá þeim tíma hafði liðið leikið 68 leiki í undankeppni, unnið 66 þeirra, gert 2 jafntefli og skorað 344 mörk gegn 19.
Ítarleg umfjöllun og viðtöl er að finna á helstu íþróttamiðlum landsins.
Morgunblaðið/mbl.is
Fótbolti.net
433.is
RÚV
Vísir
Byrjunarlið Íslands gegn Þýskalandi í dag:
Næsti leikur Íslands í riðlinum verður gegn Tékklandi á þriðjudaginn. Leikurinn hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á RÚV.