A karla - Tveir landsleikir í nóvember
A landslið karla mun leika tvo vináttuleiki í nóvember og fara þeir báðir fram í Katar. Leikirnir eru liður í undirbúningi liðsins fyrir HM 2018 í Rússlandi.
Fyrst mun Ísland mæta Tékklandi 8. nóvember, en Tékkar enduðu í þriðja sæti í sínum riðli í undankeppni HM 2018 og verða því ekki í Rússlandi næsta sumar.
Þetta verður í sjötta skipti sem liðin mætast, en Ísland hefur unnið tvo leiki og Tékkland þrjá. Þau mættust síðast 12. júní 2015 í undankeppni EM 2016, en þá vann Ísland 2-1 sigur á Laugardalsvelli.
Ísland mætir síðan Katar 14. nóvember og verður þetta í fyrsta sinn sem liðin mætast.