• sun. 08. okt. 2017
  • Landslið

A karla - Ísland - Kosóvó í dag

logotipo_fifa2018_russia

Ísland leikur síðasta leik sinn í undankeppni HM 2018 í dag þegar liðið mætir Kosóvó á Laugardalsvelli. Hefst leikurinn klukkan 18:45. 

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur, en með sigri tryggir Ísland sér sæti í fyrsta skipti á HM, en mótið er haldið í Rússlandi næsta sumar.

Liðin mættust 24. mars síðastliðinn í Shköder í Albaníu og þann leik vann Ísland 2-1, en Björn Bergmann Sigurðarson og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Íslands.

Frábær 3-0 sigur liðsins í Tyrklandi á föstudaginn síðastliðinn kom liðinu á topp riðilsins, en Króatía gerði jafntefli við Finnland á sama tíma. 

Á sama tíma og Ísland mætir Kosóvó leika Úkraína og Króatía í Kænugarði. Ísland er á toppi riðilsins með 19 stig á meðan bæði Króatía og Úkraína hafa 17 stig í öðru og þriðja sæti. Það getur því ýmislegt ennþá gerst.

Stuðningsmannasvæði (Fan Zone)

Stuðningsmannasvæði eða Fan Zone verður fyrir leik Íslands gegn Kosóvó 9. október, þar sem áhorfendur geta hitað upp fyrir leikinn og byggt upp stemningu. 

Þeim sem ekki náðu að tryggja sér miða á leik Íslands og Kosóvó á mánudag stendur til boða að horfa á leikinn á risaskjá í öflugu hljóðkerfi í góðra vina hópi. 

Upphitun hefst tveimur klukkustundum fyrir leikinn (16:45) og er aðgangur ókeypis og öllum opinn. 

Á svæðinu verður boðið upp á andlitsmálningu og hoppukastala auk þess sem Tólfan mætir á svæðið klukkutíma fyrir leik til að keyra upp stemninguna. Veitingasala verður á svæðinu, sala á Áfram Ísland varningi sem og salernisaðstaða. 

Viðburðurinn verður staðsettur á bílastæðunum fyrir framan Laugardalsvöll og vegna hans verða bílastæðin lokuð. Fólk er beðið um að hafa það í huga þegar komið verður á völlinn að færri bílastæði verða í boði í Laugardalnum en venja er á landsleikjum og því um að gera að nýta almenningssamgöngur. 

Inngangur fyrir austurstúku

KSÍ vill beina athygli að því að allir þeir sem eiga miða í austurstúkunni, einnig þeir sem eru í hólfum J, K og L, eiga að ganga inn um inngang í suðaustur horni vallarins. Það er næst Þróttaraheimilinu. 

Í ljósi þess að fáir stuðningsmenn koma frá Kosóvó verður aðeins þessi eini inngangur, en vanalega eru hólf J, K og L fyrir stuðningsmenn andstæðinga Íslands.

Sjáumst í Laugardalnum. 

Áfram Ísland!