• fös. 06. okt. 2017
  • Landslið

A karla - Frábær 3-0 sigur í Tyrklandi

logotipo_fifa2018_russia

Ísland vann í kvöld frábæran 3-0 sigur í Tyrklandi og tyllti sér í leiðinni á topp riðilsins, en Króatar gerðu jafntefli við Finnland á sama tíma.

Tyrkland byrjaði leikinn nokkuð vel og settu mikla pressu á Ísland, en þó án þess að skapa sér nein teljandi færi. Það var svo Gylfi Sigurðsson sem komst í fyrsta færi Íslands, en gott skot hans rétt fyrir utan teig var vel varið af Volkan í marki Tyrkja. 

Íslenska liðið kom sér síðan betur og betur inn í leikinn og eftir góða pressu íslenska liðsins, og nokkrar hornspyrnur í röð, var skalli Ragnars Sigurðssonar bjargað á línu. 

Það var síðan á 31. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Hannes Halldórsson sparkaði boltanum langt fram, Jón Daði tók hann niður og tók sprettinn upp kantinn. Hann átti síðan frábæra sendingu fyrir og barst hún alla leið á fjærstöngina þar sem Jóhann Berg lúrði og tókst að setja boltann í netið. 1-0 fyrir Ísland. 

Það var augljóst að Tyrkir voru í smá sjokki eftir markið og Ísland hélt áfram að fá góð færi. Gylfi átti skot rétt fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og framhjá. Hörður náði síðan ágætis skalla á markið eftir hornspyrnuna, en Volkan komst í boltann á undan Ragnari. 

Það tók strákana ekki meira en átta mínútur að bæta við öðru marki sínu. Jón Daði fékk þá boltann, fór með hann inn í teig, hélt frá sér varnarmönnum Tyrkja og náði að pota boltanum í gegn. Þar var Birkir Bjarnason kominn og hann lagði boltann frábærlega í markið. 2-0 fyrir Ísland. 

Tyrkir reyndu að skapa sér færi í lok hálfleiksins en þeim tókst það hins vegar ekki, enda lokuðu strákarnir á allt sem þeir voru að reyna að gera. Frábær fyrri hálfleikur.

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn eins vel og þeir enduðu þann fyrri. Eftir aðeins þrjár mínútur fékk Jón Daði boltann á vallarhelming Íslands. Hann kom boltanum upp kantinn þar sem Alfreð var og hann hljóp að markinu, en þegar útlitið var orðið nokkuð svart náði hann frábæru skoti á markið sem Volkan varði vel.

Stuttu síðar komst Alfreð aftur í færi. Hann fékk boltann fyrir utan teiginn, en skot hans fór af varnarmanni Tyrkja og Volkan rétt náði að slá boltann framhjá. 

Það var svo eftir hornspyrnuna sem þriðja markið kom. Frábær spyrna Jóhanns Bergs fór á fjærstöngina þar sem Aron Einar var aleinn. Aron skallaði boltann að markinu og þar var Kári Árnason og kom hann boltanum yfir línuna. 3-0!

Eftir þetta var augljóst að strákarnir ætluðu að halda í forystuna, þeir lögðust til baka og lokuðu frábærlega á allt sem Tyrkir reyndu að gera. 

Þrjár skiptingar voru gerðar. Sverrir Ingi kom inn á fyrir Aron Einar eftir 20 mínútur í seinni hálfleik, Ólafur Ingi fyrir Alfreð á 78. mínútu og Ari Freyr inn fyrir Jóhann Berg fjórum mínútum síðar.

Glæsilegur 3-0 útisigur í Tyrklandi og efsta sæti riðilsins staðreynd. Sigur gegn Kosóvó á fullum Laugardalsvelli á mánudaginn þýðir að Ísland kemst á HM í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni.

Áfram Ísland