A kvenna - 8-0 sigur á Færeyjum í fyrsta leik í undankeppni HM 2019
Ísland vann stórsigur á Færeyjum í kvöld, en leikurinn endaði 8-0 fyrir Ísland. Stelpurnar stjórnuðu leiknum frá upphafi og var aldrei spurning hvaða lið myndi enda sem sigurvegari í lok leiks.
Ísland var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og fór leikurinn mestmegnis fram á vallarhelmingi Færeyja, en það tók Ísland ekki langan tíma að skora fyrsta mark leiksins.
Þegar aðeins þrjár mínútur voru búnar af leiknum fékk Agla María Albertsdóttir boltann á hægri kantinum, stakk varnarmanninn af, renndi boltanum út í teiginn þar sem Elín Metta Jensen var og var hún ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið. 1-0 fyrir Ísland.
Liðið hélt áfram að stjórna leiknum frá A-Ö, en það var á 17. mínútu sem næsta mark leit dagsins ljós. Elín Metta sneri þá af sér varnarmann Færeyja, sendi boltann út þar sem Gunnhildur var og skoraði hún af stuttu færi. 2-0 fyrir Ísland.
Fjórum mínútum síðar átti Dagný Brynjarsdóttir skalla í slánna eftir hornspyrnu frá Hallberu G. Gísladóttur. Aðeins fimm mínútum síðar, eftir 25. mínútur, komst Hallbera upp kantinn, átti frábæra fyrirgjöf og Elín Metta skoraði með skalla. Annað mark Elínar í leiknum og staðan 3-0 fyrir Ísland.
Það var svo á 39. mínútu sem Ísland komst í 4-0. Hallbera átti þá enn á ný frábæra hornspyrnu og stangaði fyrirliðiði Íslands, Sara Björk Gunnarsdóttir, boltann framhjá markverði Færeyinga.
Staðan 4-0 í hálfleik og yfirburðir Íslands algjörir.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn jafnvel og þann fyrri og tók það aðeins tvær mínútur að skora fyrsta mark hálfleiksins. Hallbera átti þá enn og aftur frábæra hornspyrnu beint á kollinn á Gunnhildi og setti hún boltann í markið. 5-0.
Eins og í fyrri hálfleiknum stjórnaði Ísland síðari hálfleiknum og eftir 66 mínútur skoraði Fanndís Friðriksdóttir sjötta mark Íslands. Hún átti þá aukaspyrnu út á kanti, sendi boltann fyrir, markvörður Færeyinga misreiknaði boltann og fór hann í netið. 6-0.
Strax eftir markið kom fyrsta skipting Íslands, en Sigríður Lára Garðarsdóttir kom þá inn á fyrir Gunnhildi Yrsu.
Fjórum mínútum síðar kom Ingibjörg Sigurðardóttir með góða fyrirgjöf frá hægri, Fanndís náði fínum skalla á markið en markvörður Færeyinga sá við henni.
Tvöföld skipting var gerð á 79. mínútu. Þá komu inn Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sandra María Jessen fyrir Öglu Maríu og Elínu Mettu.
Stelpurnar héldu áfram að sækja, sköpuðu sér þónokkuð af færum og átti Sandra María t.a.m. skot í stöngina eftir góða sókn.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við sjöunda marki Íslands á 89. mínútu þegar hún átti frábæran skalla eftir flotta fyrirgjöf Ingibjargar. Það var síðan ekki liðin mínúta þegar Fanndís Friðriksdóttir bætti við áttunda marki Íslands. Markið var af dýrari gerðinni, frábært skot af vítateigslínu beint upp í vinkilinn.
Stelpurnar hefðu getað bætt við enn fleiri mörkum í uppbótartíma, en frábær 8-0 sigur staðreynd og liðið byrjar undankeppni HM 2019 frábærlega.
Næstu leikir Íslands eru í október. Þá mætir liðið Þýskalandi 20. október og Tékklandi 24. október, en báðir leikirnir fara fram ytra.
Áfram Ísland!