A kvenna - Fyrsti leikur í undankeppni HM 2019
A landslið kvenna spilar sinn fyrsta leik í undankeppni HM 2019, og sinn fyrsta síðan liðið lék á EM í sumar, mánudaginn 18. september. Leikurinn er að sjálfsögðu á Laugardalsvelli og hefst hann klukkan 18:15.
Mótherjar liðsins í leiknum eru Færeyjar, en þær eru að taka þátt í undankeppni stórmóts í fyrsta sinn. Færeyska liðið þurfti að fara í gegnum forkeppni til að komast í undankeppni HM 2019 og toppuðu þær þar riðil sinn. Mótherjar liðsins voru Tyrkland, Svartfjallaland og Lúxemborg, en Færeyjar unnu alla leiki sína þar.
Önnur lið í riðli Íslands eru Þýskaland, Tékkland og Slóvenía, en í október mætir Ísland Þýskalandi og Tékklandi ytra.
HM 2019 fer fram í Frakklandi dagana 1.-30. júní 2019, en leikið verður í Lyon, París, Nice, Montpellier, Rennes, Le Havre, Valenciennes, Reims og Grenoble.
Það lið sem vinnur riðilinn fer beint á HM, en fjögur bestu lið í 2. sæti fara í umspil um tvö laus sæti í Frakklandi. Það er því nauðsynlegt að byrja keppnina vel, en Ísland hefur aldrei komist á HM, hvort sem það er í karla- eða kvennaflokki.
Ísland endaði í 2. sæti síns riðils í undankeppni HM 2015, en var ekki með nægilega góðan árangur til að komast í umspil. Það sama á einnig við um undankeppni HM 2011.
Frítt á leikinn
Frítt verður fyrir alla á leikinn og er því ekkert annað að gera en að fjölmenna á Laugardalsvöll og hvetja stelpurnar okkar til sigurs.
Áfram Ísland!