• þri. 05. sep. 2017
  • Landslið

A karla - Frábær 2-0 sigur á Úkraínu

IMG_2702

Ísland vann í kvöld frábæran 2-0 sigur á Úkraínu á Laugardalsvelli. 

Gylfi Sigurðsson skoraði bæði mörk liðsins, fyrra strax í byrjun fyrri hálfleiks og hið seinna á 66. mínútu.

Með sigrinum er Ísland komið að nýju upp að hlið Króatíu í efsta sæti riðilsins með 16 stig. 

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og bæði lið sköpuðu sér ágætis færi. Hannes Þór Halldórsson varði vel gott skot Yevhen Konoplyanka, og Birkir Bjarnason átti skot fram hjá eftir góða sendingu Jóns Daða Böðvarssonar. 

Staðan því markalaus þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks. 

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn af gífurlegum krafti og tók það aðeins mínútu fyrir liðið að skora. Emil Hallfreðsson átti fyrirgjöf frá vinstri, boltinn datt úr höndum Pyatov, markvörðs Úkraínu, og Gylfi var að sjálfsögðu mættur á svæðið og kom boltanum yfir línuna. 

1-0 fyrir Ísland. 

Það var síðan 20 mínútum síðar sem Gylfi skoraði annað mark sitt og Íslands. Jóhann Berg fékk boltann, átti flottan sprett upp kantinn, sendi boltann inn á teig þar sem Jón Daði stoppaði boltann og Gylfi lagði hann framhjá Pyatov.

2-0 og stemningin á vellinum ótrúleg. 

Eftir markið virtist aldrei möguleiki á neinu öðru en íslenskum sigri, liðið hélt boltanum mjög vel og var mjög skipulagt til baka.

Úkraínumönnum tókst ekki að skapa sér nein teljandi færi og var Ísland nær því að bæta við ef eitthvað var. Frábær sigur og frábær frammistaða hjá Íslandi í kvöld. 

Á sama tíma vann Tyrkland 1-0 sigur á Króatíu sem þýðir að Ísland og Króatía eru efst með 16 stig, en síðan koma Úkraína og Tyrkland næst með 14 stig. 

Það er því ljóst að síðustu tvær umferðirnar verða gríðarlega spennandi, en Ísland leikur næst við Tyrkland ytra 6. október og Kosóvó 9. október heima. 

Áfram Ísland!