• mán. 04. sep. 2017
  • Landslið

A karla - Ísland mætir Úkraínu í dag

20170901_114002

Ísland mætir í dag Úkraínu á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2018. Hefst leikurinn klukkan 18:45 og fer hann fram á Laugardalsvelli. 

Eftir tap liðsins gegn Finnlandi á laugardaginn situr Ísland í 3. sæti riðilsins, en Úkraína komst í 2. sætið með 2-0 sigri sínum á Tyrklandi. 

Toppbaráttan í riðlinum er þá þannig að Króatía er efst með 16 stig, Úkraína í öðru með 14 stig, Ísland í þriðja með 13 stig og Tyrkland er í fjórða með 11 stig. 

Það er því ljóst að leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, en Ísland getur endurheimt 2. sætið með sigri í kvöld. Á sama tíma mætast einnig Tyrkland og Króatía í Tyrklandi. 

Því gæti staðan í riðlinum breyst töluvert í kvöld.

Þetta er í fjórða skipti sem Ísland og Úkraína mætast og hefur Íslandi aldrei tekist að vinna í viðureignum þeirra. 

Þetta er seinni viðureign liðanna í undankeppni HM 2018, en fyrri viðureignin endaði með 1-1 jafntefli, en Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands strax á 6. mínútu. 

Liðin voru saman í undankeppni EM 2000. Leikur þeirra í Kiev endaði með 1-1 jafntefli þar sem Lárus Orri Sigurðsson skoraði mark Íslands. Úkraína vann síðan 1-0 sigur á Laugardalsvelli. 

Þegar þrír leikir eru eftir af riðlinum eru þetta leikir liðanna í toppbaráttu hans:

Leikir sem Ísland á eftir:

Ísland – Úkraína 5. september

Tyrkland – Ísland 6. október

Ísland – Kosóvó 9. október

Leikir sem Úkraína á eftir:

Ísland – Úkraína 5. september

Kosóvó – Úkraína 6. október

Úkraína – Króatía 9. október

Leikir sem Króatía á eftir:

Tyrkland – Króatía 5. september

Króatía – Finnland 6. október

Úkraína – Króatía 9. október

Leikir sem Tyrkland á eftir:

Tyrkland – Króatía 5. september

Tyrkland – Ísland 6. október

Finnland – Tyrkland 9. október

 

Það er því ljóst að það er mikið undir í leiknum í kvöld. Með sigri tekur Ísland aftur örlögin í sínar hendur fyrir leikina gegn Tyrklandi og Kosóvó. 

Látum heyra í okkur!

Áfram Ísland!