A karla - Tap í Finnlandi
Íslenska landsliðið tapaði 1-0 í Finnlandi í undankeppni HM 2018. Eina mark leiksins kom á 8. mínútu en það var Alexander Ring sem skoraði beint úr aukaspyrnu. Íslenska liðið sótti stíft í leiknum og átti góð tækifæri til að jafna metin en inn vildi boltinn ekki.
Finnska liðið byrjaði leikinn af krafti og pressaði stíft á leikmenn Íslands. Emil Hallfreðsson stoppaði sókn Finna á 8. mínútu og átti Ring gott skot á markið sem fór í slánna og inn. Íslenska liðið varð fyrir skakkaföllum a 75. mínútu en þá fékk Rúrik Gíslason sitt seinna gula spjald og þar með rautt. Hann verður því í leikbanni í leiknum gegn Úkraínu á þriðjudaginn.
Það er stutt stórra högga á milli en íslenska liðið leikur þá gegn Úkraínu á Laugardalsvelli. Uppelt er á leikinn en stuðningsmannasvæði verður fyrir leik á bílastæði við Laugardalsvöll þar sem hægt verður að drekka í sig stemninguna.
Staðan í riðlinum er þannig að Króatía er á toppnum með 16 stig eftir að vinna 1-0 sigur á Kosóvó, Úkraína vann 2-0 sigur á Tyrklandi og er í 2. sæti með 14 stig, Ísland er í 3. sæti eftir tapið gegn Finnum með 13 stig, Tyrkland er í 4. sæti með 11 stig, þá koma Finnar með 4 stig en Kosóvó er á botni riðilsins með 1 stig.
Smelltu hérna til að skoða riðilinn.
Áfram Ísland!