• mán. 28. ágú. 2017
  • Landslið

U-18 karla - Ísland endaði í 4. sæti á móti í Tékklandi

KSI-MERKI-PNG

U-18 ára landslið karla tók í síðustu viku þátt í átta liða móti í Tékklandi þar sem það var í riðli með Tékklandi, Slóvakíu og Úkraínu. 

Fyrsti leikur liðsins var gegn heimamönnum og var 3-0 tap þar staðreynd. 

Næst var andstæðingurinn Slóvakía og þar komu strákarnir vel til baka og unnu frábæran 3-0 sigur. Dagur Dan Þórhallsson skoraði tvö mörk úr vítaspyrnum í fyrri hálfleik, en Ágúst Hlynsson bætti við þriðja markinu undir lok leiksins. 

Í síðasta leiknum gegn Úkraínu var 1-1 jafntefli staðreynd, en Brynjólfur Willumsson skoraði mark Íslands. Í vítaspyrnukeppninni eftir leik skoruðu þeir Brynjólfur Willumsson, Atli Barkarson, Sævar Atli Magnússon, Viktor Örlygur Andrason og Dagur Dan Þórhallsson.

Fjögur stig skiluðu liðinu í 2. sæti riðilsins og léku strákarnir því um 3.-4. sæti. Þar var andstæðingurinn Bandaríkin og var leikurinn erfiður fyrir Ísland og endaði hann með 4-0 tapi. Því lenti Ísland í 4. sæti, sem er góður árangur. 

Þess má geta að Patrik S. Gunnarsson var valinn besti markvörður mótsins, en fulltrúar allra liða kusu um það eftir riðlakeppnina.

Þorvaldur Örlygsson þjálfari liðsins var ánægður með mótið og hafði þetta að segja um það:

,,Mótið gekk vel í alla staði, það var mikið álag á leikmönnum,4 leikir á 5 dögum. Þetta var frábært tækifæri til að skoða leikmenn og sjá hvernig við stöndum gagnvart þessum þjóðum."

,,Það að fá að spila við mismunandi þjóðir með mismunandi stíl er reynsla sem mun nýtast bæði leikmönnum og þjálfurum. Það er augljóst að margar af þessum þjóðum eru búnar að æfa og spila töluvert meira en við."

,,Þannig að fá að komast á mót sem þetta er eiginlega nauðsynlegt fyrir okkur til að undirbúa þá enn betur fyrir það þegar þeir koma upp í U19 landsliðið."

,,Það er von mín að við fáum að gera þetta að föstum lið fyrir U18 landslið karla, að fara árlega á þetta mót í Prag."