A karla – Landsliðið er mætt til Finnlands
Leikmenn A landsliðs karla eru nú komnir til Finnlands og dvelja næstu daga í Helsinki þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikina mikilvægu gegn Finnlandi og Úkraínu í undankeppni HM 2018. Liðið mun dvelja í Helsinki fram á fimmtudag þegar haldið verður til Tampere þar sem leikið verður gegn heimamönnum laugardaginn 2. september.
Áður en haldið verður til Tampere á fimmtudag munu leikmenn íslenska liðsins mæta til að styðja íslenska körfuboltalandsliðið í fyrsta leik sínum á EM í körfubolta sem fram fer hér í Finnlandi eins og allir vita. Ísland og Grikkland mætast í þeim leik og má búast við gríðarlega góðri stemningu enda fjöldi íslendinga á leið til Finnlands til að fylgjast með mótinu.
Næstu dagar fara í að undirbúa leikmenn fyrir átökin gegn Finnum en fyrsta æfing liðsins var í dag, mánudag. Í framhaldi af æfingunni fengu leikmenn ítarlegar upplýsingar um finnska liðið frá Arnari Bill en hann hefur séð um að kortleggja þá fyrir Heimi og félaga síðustu mánuðina.
Ljóst er að með hagstæðum úrslitum í leikjunum tveimur sem framundan eru heldur íslenska liðið sér í kjörstöðu fyrir lokatörnina í undankeppninni en síðustu tveir leikirnir í undankeppninni fara fram í byrjun október.
Eftirtaldir leikir fara fram í I riðli nú í byrjun september:
Laugardagur 2. september
- Kl. 16:00 Finnland-Ísland
- Kl. 18:45 Úkraína-Tyrkland
- Kl. 18:45 Króatía-Kósovó
Þriðjudagur 5. september
- Kl. 18:45 Ísland-Úkraína
- Kl. 18:45 Kósovó-Finnland
- Kl. 18:45 Tyrkland-Króatía
Staðan í riðli Íslands í undankeppni HM 2018