Umræða um dómgæslu á EM – hugleiðing
Nú hef ég verið að dæma fótbolta í sjö ár, þar af fimm ár í efstu deild kvenna. Áður fyrr spilaði ég fótbolta en þegar ég var 17 ára meiddist ég og þurfti að taka árs frí. Endurhæfingin gekk seint og ég var að verða verulega eirðarlaus.
KSÍ var að bjóða upp á sérstakt dómaranámskeið fyrir konur og ákvað ég að skella mér á það, enda orðin hundleið á að hjóla og synda. Eftir námskeiðið fór ég heim á Höfn í Hornafirði um sumarið. Þar var fulltrúi frá Sindra sem hringdi oft í mig og fékk mig til að dæma fyrir sig leiki í yngri flokkum. Ég var farin að hlaupa aftur en gat ekki enn spilað svo þetta hentaði vel. Síðan kom að því að meiðslunum lauk en þá hafði áhuginn færst frá því að spila fótbolta og yfir í að dæma hann. Í dag er ég eina konan sem dæmi í efstu deild kvenna Þegar ég fer erlendis að dæma á alþjóðlegum knattspyrnumótum og spjalla við aðra dómara furða sig allir á þessari setningu.
Flest önnur lönd hafa nær eingöngu kvendómara á kvennaleikjum. Flestum finnst eðlilegt að land með landslið í toppklassa, þar sem áhugi á kvennaknattspyrnu er gífurlega mikill, hefði einnig marga sterka kvendómara.. en svo er ekki. Hægt er að segja að kvendómarar séu á sama stað og kvennlandsliðið fyrir 15 árum síðan. Áhuginn er takmarkaður og stuðningurinn lítill. Fólk furðar sig á hvernig maður nenni þessu eða hvort það sé ekki erfitt að láta öskra á sig. Til að geta verið með bestu mögulegu dómarana þarf að vera hægt að velja úr þeim. Þessi pistill er ekki hugsaður til að afsaka dómgæsluna á EM eða gagnrýna hana. Hins vegar vil ég minna Íslendinga á að líta heim. Nú hefur hver fyrirsögnin á eftir annarri snúist um vonbrigði vegna dómgæslunnar á EM.
Ég segi: tökum málin í okkar eigin hendur. Búum til toppdómara sem hægt er að vera stoltur af. Hvort sem þær dæma íslensku deildinni eða ná lengra!