• lau. 22. júl. 2017
  • Landslið

EM 2017 - 1-2 tap gegn Sviss í Doetinchem

20316982_10155436507442988_265505907_o

Ísland tapaði í dag fyrir Sviss, 1-2, í öðrum leik sínum á EM 2017. Fanndís Friðriksdóttir kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik, áður en Sviss jafnaði metin rétt fyrir lok hálfleiksins. Þær svissnesku skoruðu síðan annað mark sitt í byrjun seinni hálfleiks og þar við sat. 

Leikurinn var nokkuð jafn framan af, en það var á 33 mínútu sem dró til tíðinda. Dagný Brynjarsdóttir átti þá stórkostlega sendingu á Fanndísi Friðriksdóttur sem tók leikmann Sviss á, komst í gott færi og setti boltann í hornið fjær. Glæsileg sending og frábært skot. 1-0 fyrir Ísland. 

Íslenska liðinu tókst hins vegar ekki að halda forystunni lengi, en þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum tókst Sviss að jafna. Það var fyrirliði liðsins, Lara Dickenmann, sem skoraði jöfnunarmark Sviss. Nokkuð sanngjörn staða í hálfleik. 

Sviss komu gríðarlega sterkar út í seinni hálfleikinn og það tók þær aðeins sjö mínútur að skora annað mark sitt. Ramona Bachmann skoraði þá eftir góða sendingu. Staðan 1-2, en þó nóg eftir af leiknum. 

Ísland reyndu allt til þess að jafna leikinn, en þrátt fyrir góðar tilraunir tókst þeim ekki að finna leiðina framhjá Gaelle Thalmann í marki Sviss, en heilum 11 mínútum var bætt við leikinn eftir að höfuð Thalmann og Gunnhildar Yrsu skullu saman. 

Ísland leikur þriðja, og síðasta, leik sinn á mótinu á miðvikudaginn næstkomandi gegn Austurríki. Leikurinn er leikinn á Sparta Stadion í Rotterdam og hefst hann klukkan 18:45 að íslenskum tíma. 

Áfram Ísland!