Áfram Ísland!
Enn á ný erum við að fara með íslenskt kvennalandslið í úrslit á stórmóti. Þetta er eftirtektarverður árangur og endurspeglar þá sterku stöðu sem að kvennaknattspyrnan hefur á Íslandi. Við erum á leið til Hollands til þess að ná góðum árangri og markmiðið hlýtur að vera að komast upp úr riðlinum og síðan getur allt gerst.
Kvennaknattspyrnan er í mikilli sókn eins og við sáum m.a. í síðustu heimsmeistarakeppni sem að haldin var í Kanada. Í Evrópu er víða verið að setja aukinn kraft í uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar en betur má ef duga skal og við hér á landi viljum reyna að vera leiðandi í þessum efnum. Aukin umfjöllun um kvennaknattspyrnuna hér heima á undanförnum misserum hefur hjálpað til og aukið áhugann en það er ekki síst árangur kvennalandsliðsins sem hefur dregið vagninn.
Það eru forréttindi að fá að fylgja liðinu og styðja það í Hollandi eins og svo mörg okkar munum gera. Við íslendingar höfum keypt þúsundir miða í forsölu fyrir mótið og við munum setja sterkan svip á þetta mót innan vallar sem utan. Virkjum gleðina og samkenndina á ný og leggjum okkar af mörkum með góðum stuðningi við kvennalandsliðið okkar. Að lokum vil ég óska stelpunum góðs gengis og þeim ásamt stuðningsmönnum liðsins góðrar ferðar.
Áfram Ísland!