• þri. 04. júl. 2017
  • Landslið

U16 kvenna - Frábær sigur á Svíum

U16 kvenna 2017
U16 ára lið kvenna lék seinasta leik sinn í riðlakeppni á Opna Norðurlandamótinu í dag en leiknum lauk með frábærum 3-2 sigri á Svíum. Seinasti leikur Íslands verður á fimmtudaginn en þá er leikið um 3. - 4. sæti en mótherjar Íslands í leiknum er Þýskaland. Leikurinn hefst klukkan 11:00 að íslenskum tíma.

Stelpurnar okkar voru mjög ákveðnar frá fyrstu mínútu en á 13. mínútu kom Hildur Þóra Hákonardóttir Íslandi yfir með glæsilegu marki. Svíarnir jöfnuðu metin á 24 mínútu í sinni fyrstu sókn en Sveindís Jane Jónsdóttir kom íslenska liðinu í 2-1 9 mínútum síðar. 

Mjög góður fyrri hálfleikur hjá okkar stelpum sem voru mun betra liðið. Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri með mikilli ákveðni og góðum fótbolta. Það voru einungis þrjár mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Ísafold Þórhallsdóttir skoraði og staðan orðin 3-1 fyrir Ísland. Tölurnar í takti við gang leiksins. Stelpurnar okkar voru mjög öruggar í öllum sínum aðgerðum þar til um fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá skoruðu Svíar upp úr nánast engu. 

Það sem eftir lifði leiks og í uppbótartíma voru Svíar stelpunum okkar erfiðir enda eygðu þær möguleika á að jafna metin. Það hafðist samt blessunarlega ekki og 3—2 sigur því staðreynd. 

Frábær sigur á sterku liði Svía.