• mán. 12. jún. 2017
  • Landslið

A kvenna - Ísland tekur á móti Brasilíu í dag

Island-Slovenia-kvk-stemmning-020

Ísland tekur á móti Brasilíu í vináttulandsleik í dag. Leikurinn hefst kl. 18:30 og verður leikið á Laugardalsvelli. Þetta er síðasti leikur Íslands fyrir úrslitakeppni EM sem hefst í Hollandi í júlí.  Þetta er í fyrsta skipti sem landslið frá Brasilíu leikur landsleik í knattspyrnu hér á landi.

Landslið Brasilíu er í 9. sæti á styrkleikalista FIFA og kemur héðan frá Spáni þar sem þær lögðu heimastúlkur í vináttulandsleik, 1 - 2.   Með liðinu leikur ein allra besta knattspyrnukona sögunnar, Marta.  Hún var m.a. valin besta knattspyrnukona heims 5 ár í röð, frá árunum 2006 - 2010.

Miðasala á leikinn er í fullum gangi og fer hún fram á www.midi.is.  Miðasala á leikdegi opnar svo á Laugardalsvelli kl. 12:00 á hádegi.  Miðaverð er 1.500 krónur fyrir fullorðna en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.



Líkt og fyrir leikinn gegn Króatíu á sunnudaginn verður stuðningsmannasvæði opið á bílastæðinu fyrir framan Laugardalsvöll. Svæðið opnar 2 klukkustundum fyrir leik.

Á svæðinu verða hoppukastalar fyrir börnin, andlitsmálun og veitingasala. Í tilefni af 70 ára afmæli KSÍ verður boðið upp á afmælisköku og sannkölluð sambastemning verður á svæðinu þar sem Samúel Jón Samúelsson (betur þekktur sem Sammi í Jagúar) mætir ásamt félögum sínum í brasilíska brass bandinu Reykjavík Batucata og heldur uppi stemningu.

Fólk er hvatt til að mæta snemma í Laugardalinn í dag til að taka þátt í stemningunni og hvetja stelpurnar okkar til dáða gegn sterku liði Brasilíu.