• fim. 08. jún. 2017
  • Landslið

A kvenna - Markalaust jafntefli í bleytunni í Dublin

Island-Slovenia-kvk-108

Ísland og Írland gerðu marklaust jafntefli í vináttulandsleik í kvöld en leikið var á Tallaght vellinum í Dublin.

Það rigndi mikið í Dublin i dag og rétt áður en leikurinn hófst gerði gríðarlega rigningu þar sem þrumur fylgdu með í kjölfarið.  Völlurinn var því vel blautur og gerði leikmönnum nokkuð erfitt fyrir.  Fyrstu mínútur leiksins voru jafnar og fyrsta markskot leiksins kom á 13. mínútu þegar Fanndís Friðriksdóttir átti skot fyrir utan vítateig sem var varið.  Íslenska liðið var meira með boltann en írska liðið varðist aftarlega og gaf fá færi á sér.  Helsta ógn þeirra voru löng innköst en íslenska liðið réð mjög vel við allar tilraunir heimamanna.

Fyrsta alvöru færið kom svo á 32. mínútu þegar Glódís Perla Viggósdóttir átti fyrirgjöf sem datt fyrir Hallberu Guðný Gísladóttur en skot hennar fór yfir markið.  Markalaust í leikhléi og bæði lið gengu vot til búningsklefana.  Reyndar kom íslenska liðið boltanum í netið eftir hornspyrnu Fanndísar en dæmt var brot á íslenska liðið og vakti sá dómu litla kátínu á meðal íslenska hópsins.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, með mikilli rigningu og íslenska liðið byrjaði af krafti.  Fanndís Friðriksdóttir átti góða hornspyrnu sem markvörður Íranna sló út í teiginn þar sem Sigríður Lára Garðarsdóttir átti skot en varnarmenn Íra björguðu naumlega.  Íslenska liðði hélt áfram að stjórna leiknum og á 60. mínútu fékk Katrín Ásbjörnsdóttir mjög gott færi eftir hornspyrnu Hallberu en markvörður Íra varði vel og svo aftur skalla frá Glódísi Perlu Viggósdóttur.  Fyrsta alvöru færi Íra kom á 63. mínútu þar sem, eftir barning í teignum, Hallbera bjargaði skalla nánast á markínu.  Íslenska liðið geystist í sókn þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir átti hörkuskot úr teignum í varnarmenn Íra.  Þegar leið á leikinn gerði bleytan leikmönnum beggja liða erfitt fyrir þegar pollar tóku að myndast því það rigndi nánast allan leikinn, mismundandi mikið þó.  Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk svo dauðafæri, eftir frábæra sókn og fyrirgjöf frá Öglu Maríu Albertsdóttur, en skalli hennar frá´markteig flæktist á´milli fóta markvarðar Íra en hélst fyrir utan línuna..

Ingibjörg Sigurðardóttir lék sinn fyrsta landsleik í kvöld og þá lék Guðbjörg Gunnarsdóttir sinn 50. landsleik.

Næsti leikur Íslands verður á Laugardalsvelli, þriðjudaginn 8. júní kl. 18:30, þegar leikið verður gegn Brasilíu.  Það verður jafnframt lokaleikur Íslands fyrir úrslitakeppni EM í Hollandi.