Hólmfríður Magnúsdóttir heimsótti Hvammstanga og Vík í Mýrdal
Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir er þessa dagana á ferðalagi um landið á vegum KSÍ. Tilgangur ferðarinnar er að vekja áhuga og athygli stúlkna og drengja á kvennalandsliðinu nú í aðdraganda EM.
Hólmfríður hefur undanfarna daga heimsótt staði á suður- og norðvesturlandi og hitt þar fyrir krakka á öllum aldri. Hólmfríður kemur sjálf úr sveit og er öflug fyrirmynd fyrir stúlkur og drengi úr smærri félögum.
Fyrsta heimsókn Hólmfríðar var á Hvammstanga þar sem hún var gestur á íþróttadegi grunnskólanna í Húnavatnssýslum. Í byrjun maí heimsótti Hólmfríður síðan Vík í Mýrdal og í dag er hún í heimsókn á Blönduósi.
Hólmfríður mun heimsækja fleiri félög á næstu dögum, þ.á.m. KFR á Hvolsvelli, þar sem hún sleit barnsskónum á fótboltavellinum.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá heimsóknum hennar á Hvammstanga og í Vík.