Breytingar á knattspyrnulögunum 2017
Breytingar sem Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda (IFAB) gerir á knattspyrnulögunum hverju sinni taka alla jafna ekki gildi fyrir en 1. júní ár hvert, en að fenginni heimild IFAB tók stjórn KSÍ þá ákvörðun að nýja útgáfa laganna taki gildi í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ 2017.
Flestar breytingarnar í ár fela í sér orðalagsbreytingar og hafa lítil áhrif á leikinn sjálfann. Inn á milli eru þó breytingar sem nauðsynlegt er að kynna sér.
Viðamesta breytingin í ár er að felld er niður áminning (gult spjald) fyrir að stöðva vænlega sókn þegar dæmd er vítaspyrna á brot sem felur í sér heiðarlega tilraun til þess að leika boltanum. Þetta er í rökréttu samræmi við það að nú er veitt áminning (gult spjald), í stað brottvísunar (rautt spjald), ef dómarinn dæmir vítaspyrnu á varnarmann sem rænir sóknarmann upplögðu marktækifæri, þegar um er að ræða heiðarlega tilraun til þess að leika boltanum.
Helstu breytingar í ár eru:
7. grein (Leiktíminn). Framvegis verður gefið stutt „drykkjarhlé“ á milli hálfleikja í framlengingu.
8. grein (Upphafsspyrna). Spyrnandinn í upphafsspyrnu má framvegis vera á vallahelmingi mótherjanna (þarna er verið að setja í lagatextann þann framgangsmáta sem í raun var notaður í fyrra).
11. grein (Rangstaða). Í lögunum er nú skýrar kveðið að orði um hvenær refsa beri leikmanni í rangstöðu fyrir að trufla mótherja.
12. grein (Vænleg sókn stöðvuð). Felld er niður áminning (gult spjald) fyrir að stoppa vænlega sókn þegar dæmd er vítaspyrna á brot sem felur í sér heiðarlega tilraun til þess að leika boltanum. Þetta er í rökréttu samræmi við það að nú er veitt áminning (gult spjald), í stað brottvísunar (rautt spjald), ef dómarinn dæmir vítaspyrnu á RUPL-brot sem felur í sér heiðarlega tilraun til þess að leika boltanum.
12. grein (Ræna upplögðu marktækifæri - RUPL). Orðalagsbreyting í texta þar sem áréttað er að leikmaður sem „stefnir nokkurn veginn að“ marki mótherja geti verið rændur upplögðu marktækifæri jafnvel þó hann þurfi að skáskjóta sér í lok aðgerðar sinnar til þess að komast framhjá markverðinum/varnarmanninum.
13. grein (Aukaspyrnur varnarliðs innan eigin vítateigs). Ef mótherji, sem er innan vítateigsins þegar aukaspyrnan er tekin, eða fer inn í teiginn áður en boltinn er kominn í leik, snertir boltann eða reynir að vinna hann áður en hann hefur verið snertur af öðrum leikmanni ber að endurtaka aukaspyrnuna. Þessi breyting á framkvæmd aukaspyrna sem varnarlið tekur innan eigin vítateigs er í samræmi við fyrirmæli um framkvæmd markspyrnu í 16. grein laganna.
16. grein (Markspyrna). Ef mótherji, sem staddur er innan vítateigs þegar markspyrna er tekin, eða sem fer inn í vítateiginn áður en boltinn er kominn í leik, snertir eða sækir að mótherja til þess að reyna að vinna boltann, áður en boltinn hefur snert annan leikmann, skal markspyrnan endurtekin. (Sams konar breyting og í 13. grein laganna).