• þri. 28. mar. 2017
  • Landslið

A karla - Vináttuleikur gegn Írlandi í Dublin í dag - BYRJUNARLIÐIÐ

2017.03.28-Byrjunarlidid-(Large)

A landslið karla leikur vináttuleik gegn Írum í Dublin í dag. Leikurinn verður 11 viðureign þjóðanna sem fyrst mættust á Laugardalsvelli í vináttuleik 1958. Leikurinn sá endaði með sigri Írlands (2-3) þar sem Helgi Björgvinsson og Þórður Þórðarson skoruðu mörk Íslands. Síðast léku þjóðirnar á Laugardalsvelli árið 1997 í undankeppni HM þar sem Brynjar Björn Gunnarsson og Helgi Sigurðsson skoruðu mörk Íslands. Íslandi hefur aldrei tekist að sigra Írland í viðureignunum 10 til þessa en 7 leikjanna hafa endað með sigri Íra og 3 leikir enduðu með jafntefli. Markatalan úr leikjunum 10 er 21-10 Írlandi í hag. 

Íslenska liðið kom til Dublin á laugardag. Eftir frídag á sunnudag hélt undirbúningur fyrir leikinn gegn Írlandi áfram í gær þar sem æft var á Aviva leikvangnum auk þess sem fundað var um leikinn sem framundan er. Í gær (mánudag) fékk liðið einnig skoðunarferð um höfuðstöðvar Google á Írlandi sem er stærsti vinnustaður Google utan Bandaríkjanna með 5-6000 starfsmenn.

Leikurinn í dag hefst kl. 18:45 (ísl tíma) og verður sýndur beint á Stöð 2 sport. 

Eftirtaldir leikmenn hefja leikinn fyrir Íslands hönd
Mark: Ögmundur Kristinsson
Vörn: Birkir Már Sævarsson, Sverrir Ingi Ingason, Ragnar Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon
Miðja: Rúrik Gíslason, Ólafur Ingi Skúlason, Aron Einar Gunnarsson og Aron Sigurðarson
Sókn: Kjartan Henry Finnbogason og Jón Daði Böðvarsson