A karla – Leikur gegn Kósóvó í dag
A landslið karla leikur gegn Kósóvó í Shkoder í Albaníu í dag. Leikurinn er liður í undankeppni HM 2018 þar sem Ísland er í þriðja sæti I riðils en Kósóvó er í því sjötta með 1 stig.
Lið Íslands hefur undirbúið sig fyrir leikinn síðan á mánudag þegar það hittist í Parma á Ítalíu. Á miðvikudag kom liðið svo til Albaníu þar sem ein æfing hefur farið fram á keppnisvellinum. Aðstaðan hér í Shkoder er eins og best verður á kosið en Loro Borici leikvangurinn er ný uppgerður og aðstæður leikmanna og starfsfólks öll til fyrirmyndar.
Stemningin fyrir leiknum er góð í borginni og voru stuðningsmenn Kósóvó liðsins byrjaðir að hita upp með söng og gleði upp úr hádegi í dag en gestgjafarnir ætla sér sigur í kvöld, rétt eins og okkar menn.
Ljóst er að leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur þar sem sigur Íslands kemur liðinu í baráttu um efsta sæti riðilsins. Næsti leikur er gegn Króötum sem eru eins og stendur efstir í riðlinum með 10 stig. Á sama tíma og leikur Íslands og Kósóvó fer fram mætast lið Króatíu og Úkraínu í Zagreb en kl. 18:00 hefst leikur Tyrklands og Finnlands í Antalya.
Leikirnir hefjast allir kl. 19:45 og verður leikur Kósóvó og Íslands sýndur beint á RÚV.