A kvenna – Jafntefli gegn Noregi í baráttuleik
Kvennalandsliðið gerði 1-1 jafntefli gegn Noregi í baráttuleik á Algarve Cup í kvöld. Ade Hegelberg skoraði fyrir Noreg strax á 4. mínútu leiksins en Gunnhildur Yrsa var fljót að svara fyrir okkar hönd og jafnaði leikinn á 10. mínútu eftir góða takta hjá afmælisbarninu, Elínu Mettu, á hægri kantinum.
Stelpurnar okkar áttu ágætis leik en Freyr Alexandersson spilaði fram frekar reynslulitlu liði sem þó stóð vel undir væntingum. Baráttan var svo sannarlega til staðar og var leikurinn töluvert harður á köflum.
Um miðjan fyrri hálfleik meiddist Sandra María Jessen á hné og var borin af vellinum. Í framhaldinu af því var hún flutt á sjúkrahús þar sem hún fór í myndatöku. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu alvarleg meiðsl Söndru eru en vonandi verður hægt að greina betur frá því á morgun.
Næsti leikur liðsins á mótinu verður gegn Japan á föstudag. Leikurinn hefst kl. 14:45 og verður sýndur beint á RÚV.