• mán. 27. feb. 2017
  • Landslið

A kvenna – Mikilvægur hluti undirbúnings fyrir EM hafinn í Algarve

20170227_110741-(Large)

A landslið kvenna kom til Algarve í Portúgal seint í gærkveldi eftir langt og strangt ferðalag. Vegna snjóþunga í Reykjavík varð töluverð seinkun á flugi frá Keflavík sem varð til þess að hópurinn missti af tengiflugi frá Amsterdam til Lissabon. Það var því þreyttur hópur sem kom á Penina hótelið í Algarve rúmlega 1 í nótt. 

Ekki hefur gefist mikill tími til að hrista af sér ferðaþreytuna í dag þar sem vel var tekið á því á fyrstu æfingu verkefnisins sem var í morgun. Í dag var jafnframt svokallaður fjölmiðladagur UEFA þar sem hópur á vegum sambandins var að störfum við myndatökur og undirbúning á efni sem nýtt verður í tengslum við EM í sumar.

Á morgun verður æft samkvæmt áætlun en jafnframt mun þjálfarateymið fara yfir leikinn gegn Noregi á miðvikudag sem verður fyrsti leikur Íslands á mótinu. 

Leikurinn á móti Noregi hefst kl. 18:30 á miðvikudag og verður sýndur beint á RÚV2