A karla – Leikur gegn Mexíkó í Las Vegas á morgun
A landslið karla leikur gegn Mexíkó á morgun í Las Vegas og hefur liðið, sem kom til Las Vegas á sunnudagskvöldið undirbúið sig undir leikinn síðustu tvo daga. Tvær æfingar hafa farið fram og hefur þjálfarateymið notað þær til að undirbúa liðið sem best fyrir leikinn sem fram fer á Sam Boyd leikvanginum á morgun kl. 19:06 að staðartíma (3:06 ísl tíma aðfaranótt fimmtudags). Æfingin í gær, mánudag, fór fram á æfingasvæði háskólaliðs í borginni en æfingin í dag fór fram á keppnisvellinum sem venjulega er notaður sem keppnisvöllur í Amerískum fótbolta.
Aðstæðurnar hér í Las Vegas eru góðar en lítill tími hefur gefist til að skoða sig um í borginni. Hópurinn fór þó í stutta rútuferð í gærkveldi þar sem m.a. gafst tími til að skoða gosbrunnana við Bellagio hótelið.
Ljóst er að leikurinn á móti Mexíkó verður erfitt verkefni en landslið Mexíkó er skipað mjög reynslumiklum leikmönnum sem margir hverjir hafa spilað nokkra tugi leikja fyrir landsliðið. Þó að heildarlandsleikjafjöldi íslenska liðsins sé aðeins rétt í kringum 30 leikir láta strákarnir okkar engan bilbug á sér finna og ætla sér að sýna sitt allra besta í leiknum á morgun.