A karla - Landsliðshópurinn kominn til Kína - Viðtöl
A landslið karla kom til Nanning í Kína síðdegis í dag eftir langt og strangt ferðalag. Skipuleggjendur China Cup tóku vel á móti hópnum og færðu Rúnari Arnarsyni formanni landsliðsnefndar blómvönd og fjöldi skólabarna fagnaði hópnum við flugstöðina.
Öll þátttökulið mótsins dvelja á sama hótelinu hér í Nanning, ásamt öllum starfsmönnum mótsins. Kínverska liðið er þegar komið á staðinn og tók hinn ítalski þjálfari liðsins, Marcelo Lippi, vel á móti Heimi Hallgrímssyni við komuna á hótelið.
Fyrsta æfing íslenska liðsins verður á keppnisleikvanginum á morgun og Ísland mun svo spila opnunarleik mótsins á móti heimamönnum á þriðjudag kl. 12:00 að íslenskum tíma og er leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Viðtöl við leikmenn og þjálfara má finna á YouTube-síðu KSÍ.