Íslenskir stuðningsmenn tilnefndir til verðlauna af FIFA - Kjóstu á netinu!
FIFA hefur tilnefnt íslenska stuðningsmenn til verðlauna fyrir magnaðan stuðning á EM árinu. Hægt er að kjósa um þrjár tilnefningar á vef FIFA.
Þeir sem eru tilnefndir til verðlauna eru stuðningsmenn Íslands fyrir stuðning liðsins á EM þar sem sérstaklega er minnst á stuðningsmennina eftir leik Íslands og Frakklands í 8-liða úrslitum. Þar sýndu stuðningsmenn liðinu virðingu sína með því að standa lengi vel eftir leikinn og hylla leikmenn og starfsfólk íslenska liðsins.
Stuðningsmenn ADO Den Haag í Hollandi eru tilnefndir fyrir að koma með mikinn fjölda af leikfangadýrin og henda til stuðningsmanna Feyenoord sem sátu fyrir neðan þá í stúkunni en það voru börn frá Sophia barnaspítalanum í Rotterdam.
Þá eru stuðningsmenn Liverpool og Dortmund tilnefndir fyrir að syngja saman „You´ll never walk alone” fyrir leik liðsins í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar en leikurinn fór fram daginn fyrir 27 ára minningarafmæli vegna Hillsborough harmleiksins. Stuðningsmenn Dortmund sungu lagið á þýsku með stuðningsmönnum Liverpool sem virðingarvott við þá sem létust í slysinu hræðilega.
Við hvetjum alla að fara á vef FIFA og kjósa en hvert atkvæði skiptir máli!