EM 2017 - Ísland hefur einu sinni lagt Frakka að velli
Ísland leikur við Frakka, Sviss og Austurríki í riðlakeppni EM næsta sumar. Fyrsti leikur Íslands er gegn Frökkum og má segja að sagan sé ekki á bandi Íslands þegar kemur að fyrri viðureignum þjóðanna.
Liðin hafa alls mæst 9 sinnum í öllum keppnum og hefur Ísland aðeins unnið einu sinni. Það var í undankeppni EM 2007 þegar Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina mark leiksins á Laugardalsvelli. Einu sinni endaði viðureign þjóðanna með jafntefli en það var árið 1997 þegar liðin skildu jöfn, 3-3, í markaleik í undankeppni EM 1997. Frakkar hafa unnið sjö leiki og seinast árið 2010 þegar Frakkar unnu 0-1 sigur í undankeppni HM 2011. Frakkland er í 3. sæti á FIFA-listanum.
Ísland og Sviss hafa mæst 7 sinnum. Ísland hefur unnið tvisvar en það var í vináttuleik árið 1985 og aftur í vináttuleik árið 1986. Liðin mættust í undankeppni HM 2015 en þá vann Sviss báðar viðureignir liðanna, 0-2 á Laugardalsvelli, og 3-0 í Sviss. Seinast mættust liðin á Algarve-Cup 2015 þar sem Sviss vann 2-0. Einn öflugasti framherji heims leikur með Sviss en það er Ramona Bachmann sem er leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi. Sviss er sem stendur í 16. sæti FIFA-listans.
Ísland og Austurríki hafa aldrei mæst á knattspyrnuvellinum en Austurríki er í 25. sæti FIFA-listans og hefur gengi liðsins farið vaxandi undanfarin ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Austurríki leikur á stórmóti í kvennaknattspyrnu en minnstu munaði að liðið næði að tryggja sig á HM í Kanada og á EM í Svíþjóð.
Á myndinni má sjá þjálfara liðanna í C-riðli, Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands, er annar frá hægri á myndinni.