• þri. 08. nóv. 2016
  • Landslið

Freyr Alexandersson: „Öll lið verðug þess að komast áfram”

Island-Slovenia-kvk-stemmning-020

Ísland er með Frakklandi, Austurríki og Sviss í C-riðli á EM í Hollandi sem fram fer næsta sumar. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, segist ánægður með dráttinn og á hann von á spennandi móti.

„Ég er hæstánægður með dráttinn og riðilinn okkar. Við vissum að það væri sama í hvaða riðli við myndum enda þá yrðu allir leikirnir erfiðir. Liðin sem eru komin alla leið á lokamót EM eiga fullt erindi þangað og því lítum við á alla leiki sem verðug verkefni sem við tökumst á í sameiningu,” segir Freyr um C-riðil sem Ísland leikur í.

„Ég met riðilinn okkar sem einn þann sterkasta á mótinu. Það má ekki gleyma því að það fara einungis tvö lið áfram úr riðlinum og við ætlum okkur að ná í sæti til að fara áfram. Öll liðin í riðlinum eru verðug þess að fara áfram og það er því ljóst að við eigum spennandi mót fyrir höndum.”

Freyr segir undirbúning liðsins á fullu og vonar hann að sem flestir taki þátt í honum. „Við munum undirbúa okkur mjög vel fyrir EM en það er ekki síður mikilvægt að leikmenn, knattspyrnusambandið og stuðningsmenn allir njóti undirbúningsins í sameiningu. Það er mikil vinna framundan en að sama skapi mikil tilhlökkun hjá öllum sem koma að liðinu fyrir þessu verkefni.”

Stuðningur úr stúkunni er mikilvægur og vonast Freyr til að sem flestir sjái sér fært á að fylla stúkurnar í Hollandi og styðja stelpurnar okkar til dáða. „Það sýndi sig vel á EM í Frakklandi hversu mikilvægur stuðningurinn er og efa ég ekki að íslenskir stuðningsmenn fjölmenni á leiki Íslands á EM og láti vel í sér heyra. Það er mikið spurt um það hvort íslenskir stuðningsmenn ætli ekki að halda upp eins góðri stemningu og á EM í Frakklandi. Ég á ekki von á öðru!”