• þri. 08. nóv. 2016
  • Landslið

EM 2017 - Bein útsending frá EM drættinum!

Island-Slovenia-kvk-108

Það er dregið í riðla í lokakeppni EM 2017 í dag í Hollandi en eins og flestir vita þá er Ísland meðal þeirra þjóða sem leika á lokamótinu. 16 lið eru í pottinum en 15 lið komust úr riðlakeppni og Holland er gestgjafi komandi sumar. 


Þetta er í þriðja sinn sem Ísland leikur á lokamóti EM en Ísland var með á EM í Finnlandi 2009 og EM í Svíþjóð 2013. Í Finnlandi komst Ísland ekki upp úr riðlinum en árið 2013 lék Ísland gegn Svíþjóð í 8-liða úrslitum. Fimm lið eru að taka þátt á EM í fyrsta sinn en það eru Austurríki, Belgía, Skotland, Sviss og Portúgal en Portúgal komst í lokakeppnina eftir umspilsleiki. 

Ísland er í potti 3 með Ítalíu, Danmörku og Skotlandi og er því ljóst að Ísland getur ekki mætt þeim í riðlakeppninni. Dregið er í 4 riðla sem hver er með 4 lið í og fer Holland í A-riðil sem gestgjafi. 

Drátturinn hefst klukkan 16:30 að íslenskum tíma og verður hann í beinni á UEFA.com og á samfélagsmiðlum KSÍ. Nánari upplýsingar um riðlanna og viðtal við Frey Alexandersson, landsliðsþjálfara, kemur á vef KSÍ eftir dráttinn.