• mið. 26. okt. 2016
  • Landslið

U17 kvenna - Öruggur sigur á Hvít Rússum

UEFA EM U17 kvenna
WU17_Landscape_Master_Dark_cmyk-01

Stelpurnar í U17 byrjuðu undankeppni EM á mjög sannfærandi hátt þegar þær lögðu Hvít Rússa í Cork á Írlandi.  Lokatölur urðu 4 - 0 fyrir Ísland og leiddu okkar stelpur með þremur mörkum í leikhléi.

Sigurinn var mjög sannfærandi og var íslenska liðið mun sterkari aðilinn í leiknum.  Sveindís Jane Jónsdóttir kom íslenska liðinu yfir á 11. mínútu leiksins og Hlín Eiríksdóttir bætti við marki 26. mínútu.  Það var svo sex mínútum síðar sem að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir bætti við þriðja marki Íslendinga og þannig stóðu leikar þegar flautað var til leikhlés.  Sveindís Jane bætti svo við fjórða markinu eftir níu mínútna leik í síðari hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir fín færi Íslendinga til að bæta við.

Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun frá Cork:

Markvörður-Birta Guðlaugsdóttir
Hægri bakvörður- Elín Helga Ingadóttir
Miðverðir- Valdís Björg Sigurbjörnsdóttir og Sóley María Steinarsdóttir
Vinstri bakvörður- Daníela Dögg Guðnadóttir
Aftari miðja- Stefanía Ragnarsdóttir
Fremri miðja- Alexandra Jóhannsdóttir, fyrirliði og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
Hægri kantur- Hlín Eiríksdóttir
Vinstri kantur- Sólveig Jóhannesdóttir Larsen
Framherji - Sveindís Jane Jónsdóttir

Íslendingar byrjuðu leikinn betur. Eftir nokkrar álitlegar sóknir skoraði Sveindís flott mark á 11. min eftir undirbúning Stefaníu. Eftir markið sóttu Hvít Russar í sig veðrið og sóttu nokkuð og skoruðu m.a mark sem dæmt var réttilega af. En á 25. mín braust Hlín upp hægri kantinn og skoraði af miklu harðfylgi. Eftir frábæra sókn á 30. mín varði markmaður Hvít Rússa vel frá Stefaníu í horn, upp úr horninu skoraði Karólína Lea með skalla eftir góða sendingu frá Alexöndru. Staðan orðin 3-0 í hörku leik.

Á 34. mín komst Sólveig í gegn eftir góðan undirbúning hjá Sveindísi, en markmaðurinn varði mjög vel.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik átti Hlín góða sendingu á Sveindísi, en skot hennar fór rétt yfir. Fimm mínutum seinna átti Sveindís aftur gott færi sem var varið í horn. Upp úr horninu varði markmaður Hvít Rússa vel frá Valdísi, boltinn barst út til Alexöndru sem fann Sveindísi í teignum og hún kláraði færið fagmannlega.

Sveindís út fyrir Bergdísi Fanneyju á 53. mín. Íslendingar heldu öllum völdum á vellinum og sköpuðu sér nokkur hálf færi. Á 66. mín kom Þórdís inn fyrir Elínu Helgu. Á 74. mín átti Hlín flotta fyrirgjöf sem Fanney skallaði rétt framhjá. Á 75. Kom María Björg inn fyrir Karólínu Leu. Á sömu mínútu tok Alexandra gott horn og eftir þvögu í teignum varði markmaður Hvít Rússa mjög vel frá Valdísi.

Mjög sannfærandi byrjun en næstu mótherjar okkar Íslendinga verða Færeyingar en leikið verður gegn þeim á föstudaginn.  Tvær efstu þjóðirnar komast áfram í milliriðla en síðasti leikur Íslands verður gegn gestgjöfunum frá Írlandi, mánudaginn 31. október.