• þri. 18. okt. 2016
  • Landslið

Freyr Alexandersson: „Ætlum að nýta tímann vel til að undirbúa leikmenn”

18okt-A-KVK-Freyr-A-Kina-2016

Íslenska kvennalandsliðið leikur fyrsta leik sinn á Sincere-mótinu í Chonqing á fimmtudaginn. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, er ánægður með aðstæðurnar og segist spenntur fyrir leikjunum.

„Staðan á liðin er góð að flestu leyti. Svava Rós er tæp fyrir fyrsta leikinn en hún verður klár í annan leikinn á mótinu. Annars er standið á leikmönnum gott enda er þetta hingað til búið að snúast um að koma okkur í gang og snúa við sólarhringnum. Það eru allir sem komu frá Íslandi komnir á gott ról, þeir leikmenn sem komu seint í gær og í dag eru að jafna sig og verða væntanlega klárar eftir sólarhring.”

Freyr hyggst nota leikina í Kína til að undirbúa liðið fyrir EM í Hollandi og mun hann t.a.m. breyta um leikkerfi frá því sem verið hefur.

„Við ætlum að fara í fyrsta leikinn með leikkerfið 3-5-2 og prófa það leikkerfi með okkar áherslum. Fyrst og fremst erum við að einbeita okkur að því að ná góðri frammistöðu með því leikkerfi og ef það tekst þá náum við góðum úrslitum. Við viljum alltaf vinna keppnisleiki en þetta verður notað til að horfa á frammistöðu leikmanna og vonandi gengur það vel og við náum að nýta tímann sem best til að undirbúa leikmenn.” 

Viðtalið í heild sinni má finna á YouTube síðu KSÍ en einnig er að finna þar viðtöl við Dóru Maríu Lárusdóttur og Elísu Viðarsdóttur.